3.2.2024 11:14

Þrengir að Trump

Að maður með þetta allt yfir höfði sér sé talinn líklegur til að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna vegna þess að kjósendur flykkist að honum verður æ undarlegra. 

Alríkisdómari dæmdi Donald Trump á dögunum til að borga dálkahöfundinum E. Jean Carroll 83 milljónir dollara í bætur fyrir miska sem hann hefði valdið henni með því að segja hana ljúga þegar hún sagði hann hafa áreitt sig kynferðislega.

Á næstunni verður væntanlega kveðinn upp dómur í fjársvikamáli sem saksóknari í New York höfðaði gegn Trump. Sakirnar snerta bókhaldsaðferðir í því skyni að fegra fjárhagslega stöðu fyrirtækja Trumps í von að tryggja þeim sem best lánskjör. Verði Trump fundinn sekur kunna sektir að skipta hundruð milljónum dollara.

Með dómunum tveimur yrði vegið að fjárhag Trumps af meiri þunga en gerst hefur áratugum saman. Ekki er talið að þetta leiði til gjaldþrots Trumps enda lýsir hann sjálfum sér sem margmilljarðamæringi, hvað sem aðrir kunni að halda. Hann kynni hins vegar að verða að selja eitthvað af eignum sínum til að standa í skilum.

Auk þessara tveggja mála á Trump yfir höfði sér dóma í fjórum sakamálum. Einhver þeirra kann að leiða til frelsissviptingar.

Að maður með þetta allt yfir höfði sér sé talinn líklegur til að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna vegna þess að kjósendur flykkist að honum verður æ undarlegra. Fréttir herma að vísu að dómurinn vegna meiðyrðanna í garð E. Jean Carroll hafi minnkað fjárstreymi í kosningasjóð Trumps.

Eitt er fyrir Trump að laga málflutning sinn að eigin persónu á þann veg að hann sé í raun hafinn yfir lög og rétt, annað að honum takist að boða kjósendum betri lífskjör en þeir hafa notið í forsetatíð Joes Bidens.

Download-2-Donald Trump.

Efnahagur Bandaríkjanna verður sífellt betri. Þetta neyðir Trump og félaga til að breyta ræðunum sem þeir ætluðu að flytja til að flæma Biden burt úr Hvíta húsinu. Boðskapurinn átti að vera á þann veg að Biden hefði leitt efnahagshörmungar yfir þjóðina. Að halda því fram núna eru hrein öfugmæli.

Störfum fjölgaði um 353.000 í Bandaríkjunum í janúar 2024. Var mánuðurinn sá 36. í röðinni þar sem störfum fjölgar í tíð Bidens. Á hlutabréfamarkaði hafa ýmis met verið slegin og kaupmáttur launþega vex umfram verðbólgu.

Allt kemur þetta sér vel fyrir Biden sem sat undir ámæli fyrir hagstjórn sína þegar kannanir sýndu að versnandi lífskjör væru meðal þess sem hrelldi Bandaríkjamenn mest. Hrakspárnar hafa nú vikið fyrir spám um að góð stjórn efnahagsmála verði Biden til framdráttar í kosningunum 5. nóvember 2024.

Á vefsíðunni Politico er vitnað í hagfræðing sem stendur nærri kosningastjórn Trumps. Hann segir að nú verði Trumpistar að hugsa sinn gang: „Þú getur ekki vegið að forsetanum þegar stefnan gengur ekki upp en segja síðan að hann beri ekki ábyrgð þegar vel gengur,“ er haft eftir honum.

Þetta lögmál ábyrgðarinnar á við hvarvetna þar sem fjallað er um stjórnmál í lýðræðislöndum. Trump sættir sig ekki við það og þakkar sér meira að segja í kosningaræðum fyrir uppganginn á hlutabréfamörkuðum.

Ef ekki væri jafnmikið undir og í kosningabaráttu Trumps mætti kalla hana sorglegan farsa.