Þraut ritstjóra Krakkafrétta leyst
Ísgerður Gunnarsdóttir, stjórnandi krakkafrétta, sagði í Morgunblaðinu 4. desember að stjórnendum fréttanna hefði verið um megn að segja á annan veg frá falli múrsins.
Föstudaginn 29. nóvember birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu þar sem ég vék að því sem mér þótti undarlegt við frásagnir af brotthvarfi Berlínarmúrsins, annars vegar að í grein (aðsendri) í blaðinu um fall múrsins var hvorki minnst einu orði á sóasíalisma né kommúnisma þótt múrinn hefði verið reistur til að hefta flótta fólks frá sósíalískum og kommúnískum stjórnarháttum og hins vegar að í Krakkafréttum ríkisútvarpsins (RÚV) var látið eins og um skipulagsákvörðun borgaryfirvalda hefði verið að ræða.
Ísgerður Gunnarsdóttir, stjórnandi krakkafrétta, sagði í Morgunblaðinu 4. desember að stjórnendum fréttanna hefði verið um megn að segja á annan veg frá falli múrsins enda væri vandasamt að skrifa einfaldar krakkafréttir.
Í leiðara Morgunblaðsins 5. desember er brugðist við grein Ísgerðar og segir í lok leiðarans:
„Það var ágætt hjá Ísgerði Gunnarsdóttur að skrifa grein og útlista vanda þess sem segir krökkum fréttir. En það vantaði á að hún bæðist afsökunar á þeirri »lausn« sem fannst út úr þeim vanda í fréttum um Berlínarmúrinn ógurlega. Sé eina leið »RÚV« til að segja börnum óþægilegar fréttir sú að segja þeim ósatt, er ekkert annað úrræði til en að hætta að þykjast vera að segja þeim fréttir.“
Um leið og ég tek heilshugar undir þessi orð þakka ég einnig Þorsteini Siglaugssyni fyrir grein hans í Morgunblaðinu 7. desember þar sem hann leysir þraut sem Ísgerður lagði fyrir mig og aðra með þessum orðum:
„Fyrir Björn og aðra þá sem mögulega eru ósáttir við fréttina mæli ég með því að prófa að skrifa pólitískt hlutlausa frétt um þetta fyrir börn, þar sem allt sem þið mynduð vilja að kæmi fram í henni komi fram með 130-150 orðum. Ef einhver gerir það, endilega sendið okkur. Hver veit, kannski yrði hún að krakkafrétt.“
Þorsteinn leysir þraut Ísgerðar á þann einfalda og skynsamlega hátt að fara á Vísindavef Háskóla Íslands og vitna í grein sem þar birtist árið 2009 eftir Hjálmar Sveinsson, núv. borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og fyrrv. dagskrárgerðarmann. Í lok greinar sinnar segir Þorsteinn:
„Þetta [sem Hjálmar segir] er sannleikur málsins í aðeins 124 orðum. Umsjónarmaður [Ísgerður] gaf ádrátt um það í grein sinni, að vel heppnuð tillaga um orðalag kynni að verða lesin upp í þættinum. Ég legg því til að texti Hjálmars verði lesinn upp í Krakkafréttum við fyrsta tækifæri, því eins og Ari litli segir í kvæðinu [eftir Stefán Jónsson], þá á að segja börnum satt.“
Undir tillögu Þorsteins er tekið sé á annað borð markmið Krakkafrétta að hafa það sem sannara reynist.
Vissulega hefði verið betra að Ísgerður hæfi sannleiksleit sína um tilgang smánarmúrsins í Berlín áður en hún samdi fréttina um hann fyrir Krakkafréttir. Batnandi manni er þó best að lifa og þakka ég henni tilskrifið sem skilað hefur þessum góða árangri.