22.10.2025 9:30

Þráteflið um Úkraínu

Svo virðist sem Pútin telji Trump handbendi sitt í stríðinu við Úkraínu. Fáeinar vikur eru þó frá því að Trump lýsti Rússum sem pappírstígrisdýri og hvatti Úkraínumenn til að sigra í stríðinu. 

Stórfrétt þriðjudagsins 21. október var sú að stórfrétt fimmtudagsins 16. október verður ef til vill ekki að veruleika. Það er rétt, „það eru engin áform um að Trump forseti hitti Pútín forseta í nánustu framtíð,“ sagði háttsettur embættismaður í Hvíta húsinu við Reuters 21. október.

Á samfélagsmiðlum heldur Kirill Dmitriev, aðalsamningamaður Rússa, því enn fram að „friðarfundinum með Pútín forseta hafi EKKI verið aflýst,“ en Trump forseti sagði við fréttamenn að hann vildi ekki halda „tilgangslausan fund.“ Reuters greindi einnig frá því að Bandaríkjastjórn hefðu borist einkaskilaboð frá Moskvu um helgina þar sem hámarkskröfur Kremlverja vegna Úkraínu hefðu verið ítrekaðar og hafnað hefði verið kröfum um tafarlaust vopnahlé sem fyrsta skref í samningaviðræðum.

Trump varð einnig fyrir þrýstingi frá evrópskum bandamönnum Bandaríkjanna í sameiginlegri yfirlýsingu sem gefin var út snemma þriðjudaginn 21. október, þar sem leiðtogar Evrópuríkja lögðu áherslu á að „núverandi víglína ætti að vera upphafspunktur samningaviðræðna.“

Í svari við yfirlýsingunni varaði Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússlands við því að tafarlaust vopnahlé í Úkraínu myndi stangast á við samkomulagið sem Trump og Pútín náðu í Alaska.

Zelenskíj forseti, sem ef til vill skynjaði aðra sveiflu í pendúl utanríkisstefnu Donalds Trump, hélt því fram á þriðjudagskvöld að „frestun“ ráðamanna í Washington á ákvörðun um að útvega Úkraínu Tomahawk-langdræg flugskeyti hefði dregið úr þrýstingi á ráðamenn í Moskvu um að semja á forsendum Úkraínumanna.

Screenshot-2025-10-22-at-09.28.10Volodymyr Zelenskíj og Donald Trump á fundi í Hvíta húsinu föstudaginn 17. oiktóber 2025.

Þetta er lýsing rússneska útlagamiðilsins Meduza á stöðunni í tilraunum til að koma á friði í Úkraínu undir forystu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Símtalið sem hann átti við Pútin 16. október stóð í tvær klukkustundir. Daginn eftir hitti Trump Zelenskíj í Hvíta húsinu á „hávaðafundi“ að sögn fjölmiðla. Trump hefði kastað frá sér kortum sem Úkraínuforseti vildi sýna honum. Zelenskíj kom tómhentur af fundinum. Trump sagðist ætla að hitta Pútin innan tveggja vikna í Búdapest. Það verður ekki eins og að ofan greinir.

Utanríkisráðherrarnir Sergeij Lavrov og Marc Rubio ræddu saman mánudaginn 20. október. Lavrov sagði að losna yrði við nasistastjórnina og Zelenskíj í Úkraínu og afvopna her landsins sem ekki mætti tengjast ríkjum Evrópu eða NATO.

Rússar halda fast í allt sitt. Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, er í Washington og kynnir friðaráætlun Evrópuríkja, þar á meðal að Úkraína gangi í ESB. Evrópuleiðtogar hittast síðar í vikunni.

Svo virðist sem Pútin telji Trump handbendi sitt í stríðinu við Úkraínu. Fáeinar vikur eru þó frá því að Trump lýsti Rússum sem pappírstígrisdýri og hvatti Úkraínumenn til að sigra í stríðinu. Það gera þeir ekki án bandarískra Tomahawk-flauga en Trump þorir nú ekki að láta þær af hendi af ótta við hefndir Pútins.

Kannski tekst Evrópumönnum að bjarga Trump út úr þessum diplómatísku ógöngum hans? Um það snýst næsti leikur í þessu þrátefli. Verði ekki komið böndum á Pútin vegna Úkraínu, reynir hann krafta sína víðar í Evrópu eða jafnvel á Norður-Atlantshafi.