Þráhyggja Viðreisnar
Inga Sæland segist 100% á móti ESB-aðild en fær dúsu svo að hún styðji Viðreisn. Tillaga Viðreisnar miðast aðeins við sérhagsmuni flokksins en ekki þjóðarhag.
Fram til ársins 1978 höfðu sósíalistar og alþýðubandalagsmenn þá stefnu að reka yrði bandaríska varnarliðið úr landi. Þetta skyldi gert án alls tillits til stöðunnar í öryggismálum eða skuldbindinga okkar gagnvart NATO. Stefnan var meitluð í þessari setningu: Ísland úr NATO, herinn burt!
Undir slagorðinu var gengið frá Keflavík til Reykjavíkur. Þar komu þeir saman sem töldu sig verja íslenskt þjóðerni og hinir sem gengu beint erinda Sovétríkjanna af hugsjónaástæðum.
Varnarleysisstefnan var tvisvar á stefnuskrám vinstri stjórna, árið 1956 undir forsæti Hermanns Jónassonar Framsóknarflokki og 1971 undir forsæti Ólafs Jóhannessonar Framsóknarflokki. Í hvorugt skiptið náði stefnan fram að ganga: 1956 vegna átaka við Súez-skurð og uppreisnar gegn kommúnistum í Ungverjalandi og 1971 vegna þess að stjórnin sprakk áður en reyndi á framkvæmd ákvæðisins í stjórnarsáttmálanum.
Snemma árs 1974 sýndi undirskriftasöfnun Varins lands afdráttarlausa andstöðu þjóðarinnar við úrsögn úr NATO og brottför varnarliðsins. Eftir það setti Alþýðubandalagið það ekki sem kröfu við stjórnarmyndun að varnarliðið færi úr landi heldur vildi takmarka framkvæmdir á þess vegum á Keflavíkurflugvelli. Til að koma til móts við það sjónarmið var ákveðið á níunda áratugnum að minnka flugstöðina á Keflavíkurflugvelli frá því sem upphaflega var ráðgert.
Við höfnina.
Hér er þetta rifjað upp til að minna á að pólitísk þráhyggja flokks skaðar oft augljósa þjóðarhagsmuni. Annarra flokka menn sem láta undan slíkum einhliða skilyrðum með orðalagi í stjórnarsáttmála gera það valdanna vegna. Sé þetta vegna verkefna á heimavelli leiðir slíkt til vandræða sem reynt er að bjarga þar. Sé um stefnu gagnvart öðrum þjóðum að ræða er viðfangsefnið flóknara vilji stjórnvöld halda trúverðugleika. Í vinstristjórnunum 1956 og 1971 var gripið til þess ráðs að takmarka flæði trúnaðarupplýsinga um öryggismál og halda þeim frá NATO-andstæðingum meðal stjórnarliða.
Viðreisn, flokkur utanríkisráðherra, var stofnaður til þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið (ESB). Hann kom því stefnumáli sínu inn í sáttmála ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Það hefur skýrst á því rúma ári sem stjórnin hefur setið að hún er mynduð fyrir formenn flokkanna: Völd Kristrúnar, viðurkenningu á Flokki fólksins og líf Viðreisnar.
Inga Sæland fer á milli ráðuneyta en fær að skreyta sig með því „að við erum að fara að byggja hér 1.507 hjúkrunarrými“ eins og hún sagði á þingi 22. janúar til að réttlæta brot á stjórnarráðslögum í eigin þágu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fær nú að leika sinn ESB-leik með flutningi þingsályktunartillögu (í eigin nafni?) um ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu sem færð er í þann blekkingarbúning að þeir sem andmæla aðildinni séu á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður. Ómerkilegri verður málflutningurinn ekki eða vesælli. Þar sannast að Viðreisn þykir betra að veifa röngu tré en öngu.
Inga Sæland segist 100% á móti ESB-aðild en fær dúsu svo að hún styðji Viðreisn. Tillaga Viðreisnar miðast aðeins við sérhagsmuni flokksins en ekki þjóðarhag. Að Kristrún telji þetta ganga upp sýnir sætleika (spillingu?) valdanna.