Þrælsótti pírata og Pia
Þarna höfðu þingmenn tækifæri til að láta í ljós andstöðu sína við þessa fyrirætlan hefðu þeir haft þrek og þor til þess. Þeir gerðu það ekki.
Píratar og samfylkingarfólk heldur áfram að verja skammarlega framgöngu sína vegna hátíðarfundar alþingis á Þingvöllum miðvikudaginn 18. júlí. Samfylkingarmaðurinn Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur ritar grein á vefsíðuna Kjarnann sunnudaginn 22. júlí þar sem hann sakar Steingrím J. Sigfússon, forseta alþingis, um að vinna markvisst að því að sundra þingheimi og eyðileggja hátíðarfundinn með því að bjóða Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, til að flytja þar ávarp.
Sumardaginn fyrsta 19. apríl 2018 var Steingrímur J. Sigfússon þingforseti með fríðu föruneyti í Jónshúsi í Kaupmannahöfn og afhenti Tryggva Ólafssyni listmálara verðlaun kennd við Jón Sigurðsson. Daginn eftir fór Steingrímur J. í danska þingið og hitti Piu Kjærsgaard þingforseta. Fékk hún þennan fána í þakklætisskyni fyrir að ætla að flytja hátíðarræðu á Þingvallafundi alþingis 18. júlí 2018. Myndin er tekin í danska þinginu og birtist á vefsíðu alþingis, Þrátt fyrir þetta tilstand láta einhverjir varaforsetar alþingis eins og þeir hafi aldrei heyrt minnst á Piu Kjærsgaard fyrr en síðdegis 17. júlí. Á hvaða tungli búa þeir sem þannig láta?
Steingrímur J. sagði eftir hátíðarfundinn að hann hefði ekki vitað að píratar ætluðu ekki að sækja hann fyrr en hann var á leiðinni í rútu til Þingvalla. Árásir pírata í garð Steingríms J. voru upphaflega reistar á því að hann hefði ekki greint þeim nógu snemma frá því að Kjærsgaard mundi flytja þar ræðu. Daginn fyrir hátíðarfundinn, þriðjudaginn 17. júlí, sagði Steingrímur J. í lok þingfundar þegar hann boðaði þingheim til fundarins á Þingvöllum:
„Enn fremur mun forseti danska Þjóðþingsins sitja fundinn og ávarpa hann fyrir hönd dönsku þjóðarinnar. Ræðan verður þýdd á íslensku. Verður þetta í fyrsta sinn á seinni árum sem erlendur maður ávarpar Alþingi. Forseti og forsætisnefnd [Jón Þór Ólafsson pírati situr í henni] telur að tilefnið sé að þessu sinni ærið, á þessum hátíðarfundi þingsins til að minnast svo mikilsverðs samnings mill þjóðanna.
Ég vona að engar athugasemdir séu gerðar við þessar fyrirætlanir forseta.“
Þarna höfðu þingmenn tækifæri til að láta í ljós andstöðu sína við þessa fyrirætlan hefðu þeir haft þrek og þor til þess. Þeir gerðu það ekki – lítilmennska pírata birtist svo í fjarveru þeirra daginn eftir og Helgu Völu Helgadóttur, Samfylkingu, með því að hún laumaðist af hátíðarfundinum (lét þó fjölmiðla vita) og brá sér frá í kvöldverði forseta alþingis þegar Kjærsgaard flutti þar ræðu.
Birgir Hermannsson segir að „fjölmargir þingmenn“ hafi mætt með dönsk barmmerki og auglýst þau sérstaklega á samfélagsmiðum og „einn þingmaður fann sig knúinn til að flytja hluta af ræðu sinni á dönsku“. Af tilliti til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, lætur Birgir þess ekki getið að hann var sá sem sagði nokkur orð á dönsku. Hvers vegna hreyfði þetta fólk ekki andmælum í þingsalnum sjálfum þegar tækifærið gafst?
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður pírata, kaus meira að segja að þegja á alþingi þegar þingforseti gaf mönnum færi til andmæla í lok þingfundar 17. júlí. Hann tekur hins vegar til máls í Morgunblaðinu í dag (23. júlí) og slær um sig með því að gefa til kynna að brotin hafi verið þingskapalög ef ekki stjórnarskráin með því að leyfa Kjærsgaard að ávarpa alþingi.
Það sem gerðist núna var að alþingi ákvað í tilefni af hátíðarfundi sínum, án þess að andmælum væri hreyft, að forseti danska þingsins ávarpaði fundinn eftir að þingið hafði lokið dagskrá sinni. Því má auðvitað velta fyrir sér hvort þetta sé óæskilegt; hvort hætta sé á ferðum – eða var það bara hræðslan við Piu Kjærsgaard sem ærði pírata og hluta Samfylkingarinnar? Olli svo miklum ótta að þau þorðu ekki að andmæla á réttum stað og tíma.