23.11.2025 10:35

Þrælslund gagnvart Rússum

Nú eru örlagatímar í sögu Úkraínu. Hér var í gær tekið undir sjónarmið sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kynnti þegar hún gagnrýndi bandarísku tillöguna.

Friðaráætlunin til að binda enda á stríðið í Úkraínu, sem kennd er við Donald Trump Bandaríkjaforseta, og samtöl fulltrúa hans við erindreka Vladimir Pútín Rússlandsforseta, hefur ekki verið birt opinberlega en í liðinni viku var henni lekið í nokkra fjölmiðla.

Hún hefur sætt gríðarlegri gagnrýni. Sérfræðingar kalla hana uppgjafaráætlun fyrir Úkraínu“. Hún felur meðal annars í sér að Úkraína afsali sér stórum landsvæðum til Rússlands og samþykki víðtæka takmörkun á stærð hers síns – á meðan her Rússlands er alls ekki takmarkaður. Auk þess má Úkraína aldrei ganga í NATO.

Donald Trump hefur gefið Volodymyr Zelenskyj, forseta Úkraínu, frest til fimmtudagsins 27. nóvember til að skrifa undir samkomulag reist á áætluninni. Laugardaginn 22. nóvember gaf Trump þó í skyn að fyrirhuguð friðaráætlun væri ekki endanleg útgáfa.

Þennan sama laugardag efndu leiðtogar NB8-ríkjanna (norrænu ríkjanna fimm og þriggja Eystrasaltsríkja) til símafundar þar sem þeir lýstu eindregnum stuðningi við Volodymyr Zelernskíj Úkraínuforseta og hetjulega vörn Úkraínumanna gegn innrás Rússa. Í yfirlýsingunni segir að Úkraínustjórn sé reiðubúin til samninga og vinni nú að þeim með vísan til skjalsins sem Bandaríkjastjórn hafi kynnt. Minnt er á að til þessa hafi Rússar hvorki fallist á vopnahlé né nein skref í friðarátt. Þvert á móti haldi Rússar áfram að gera ruddalegar árásir á almenna borgara í Úkraínu og innviði landsins.

Vegna þessarar yfirlýsingar NB8-ríkjahópsins skal rifjað upp að sex ríkjanna eru innan ESB og studdu þau öll málstað Íslands og Noregs í atkvæðagreiðslu ESB-ríkjanna um járnblendistollana þriðjudaginn 18. nóvember.

Screenshot-2025-11-23-at-10.33.28Steve Witkoff, sérlegur samningamaður Trumps, og Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Það er ekki aðeins í Evrópu sem bandaríska friðartillagan sætir gagnrýni. The Financial Times segir að laugardaginn 22. nóvember hafi öldungadeildarþingmaður repúblikana, Mike Rounds, sagt að Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefði sagt við hóp stjórnmálamanna að drög að áætluninni væru ekki stefna Bandaríkjanna. Rounds sagði enn fremur að hann hefði fengið þær upplýsingar að áætlunin hefði verið kynnt fyrir sérstökum sendifulltrúa Bandaríkjanna, Steve Witkoff, af „einhverjum sem er fulltrúi Rússlands“.

Annar öldungadeildarþingmaður, óháði Angus King frá Maine, sem hefur oft látið sig málefni Íslands varða, kallaði áætlunina „í raun óskalista frá Rússum“.

Rubio mótmælti þessu á X, þetta væri áætlun Bandaríkjamanna með innleggjum frá Rússum og Úkraínumönnum.

Nú eru örlagatímar í sögu Úkraínu. Hér var í gær tekið undir sjónarmið sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kynnti þegar hún gagnrýndi bandarísku tillöguna.

Um leið og þau orð eru áréttuð er ástæða til að lýsa yfir undrun vegna ummæla þeirra sem telja Íslendingum farsælast að halla sér að málstað Rússa og líta fram hjá yfirgangi þeirra og brotum á alþjóðalögum; þeir hafi rétt til að beita þann ofbeldi sem þeir telji minni máttar. Þrælslundin sem birtist í stuðningi við þetta drottnunarvald er ótrúleg.