1.10.2021 10:00

Þorskur hverfur 92% í Eystrasalti

Fréttirnar um tillögu framkvæmdastjórnar ESB um niðurskurð þorskafla í Eystrasalti valda dönskum stjórnmálamönnum miklum vanda.

Sjónarmið ESB-aðildarsinna urðu undir í alþingiskosningunum 25. september. Evru-pólitíkin skilaði engum árangri. Viðreisn og Samfylkinguna eru jaðarflokkar vegna ESB/evru-stefnu sinnar. Á þessari stefnu er hlið sem aðildarsinnar ýta jafnan á undan sér eða út af borðinu. Þeir vilja aldrei ræða kröfu ESB um aðild Íslands að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins og láta eins og á einhvern óútskýrðan hátt sé unnt að semja sig undan stefnunni.

Þetta er argasta blekking. Ef til vill kynni að takast að semja um einhvern aðlögunartíma en að varanlega undanþága fengist er borin von. Einn meginþáttur þessarar stefnu er að Brusselmenn ákveða aflahámark, leyfilegan hámarksafla, á ESB-miðum og aðildarríki verða að hlíta þeirri ákvörðun.

20211001003912657orgDönskum sjómönnum á vesturhluta Eystrasalts er bannað að veiða þorsk og mega aðeins fá 141 tonn sem hliðarafla.

Í danska dagblaðinu Politiken í dag (1. október) segir að framkvæmdastjórn ESB stefni nú að því að minnka þorskkvóta í vesturhluta Eystrasalts um 92%.

Í þessari ákvörðun felst að sjómenn frá Borgundarhólmi, Sjálandi, Lálandi-Falstri, Fjóni, Langalandi og Suður-Jótlandi mega veiða 141 tonn á þorski árið 2022 í stað 1.746 tonna í ár. Þeir mega aðeins veiða og landa þorski sem meðafla en ekki róa beint eftir þorski.

Krafan um að sett verði þak á þorsk sem meðafla veldur Svend-Erik Andersen, formanni Danmarks Fiskeriforening, áhyggjum, erfitt verði að veiða nokkra bröndu án þess að fara upp fyrir þorskkvótann. Hann segir þetta „hörmulegt ástand“.

Jafnaðarmaðurinn Rasmus Prehn, matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hittir sjávarútvegsráðherra ESB-landanna á fundi 11. október til að ræða tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Hann segir að erfitt verði að hrófla við tillögunni auk þess sem Danir séu skuldbundnir til að vernda fisktegundirnar sem enn þrífist á miðum þeirra.

Þá ræðir Politiken við danskan fiskifræðing, Morten Vinther, sem segir að halda verið mjög aftur af fiskveiðum. Verði það ekki gert sé hætta á að innan tíðar hverfi þorskurinn alfarið, svo illa sé fyrir honum komið.

Þarna blasir við árangur af fiskveiðistjórn innan sjávarútvegsstefnu ESB. Margt bendir til að andóf Viðreisnar og Samfylkingar gegn fiskveiðistjórnunarkerfinu hér, sem skilað hefur miklum árangri í þágu verndunar, stafi af áhuga flokkanna á ESB-aðild. Þeir viti sem er að ESB samþykki aldrei íslenska fyrirkomulagið á fiskveiðistjórn.

Fréttirnar um tillögu framkvæmdastjórnar ESB valda dönskum stjórnmálamönnum miklum vanda enda hafa sjómenn almennt miklu meiri pólitísk áhrif en fjöldi þeirra eða aflamagn gefur til kynna. Tilfinningar og menning tengd sjómennsku og fiskveiðum ristir djúpt. Þetta sést til dæmis vel núna þegar Bretar þrengja að frönskum sjómönnum við úthlutun á veiðileyfum innan endurheimtrar breskar lögsögu. Hótanir sjómanna um hefndaraðgerðir njóta beins eða óbeins stuðnings franskra ráðamanna.

Niðurskurður á afla á einum stað leiðir til þess að róið er á ný, fengsælli mið. Í því felst rosaleg blekking að láta eins og íslensk stjórnvöld sætu ein að 200 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland ef til ESB-aðildar kæmi. Öllum ráðum yrði beitt til að sjómenn annarra þjóða kæmust í gullkistuna.