17.10.2023 10:23

Þórhildur Sunna túlkar umboðsmann

Fróðlegt væri að vita hvort þessi túlkun píratans sé rétt að mati umboðsmanns. Við því fást líklega aldrei svör. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sem blásið hefur á siðareglur þingmanna, niðurstöðu siðanefndar þingsins og forsætisnefndar í máli sem varðar hana sjálfa, hóf í gær (16. okt.) umræður á þingi um álit umboðsmanns alþingis á hæfi fjármálaráðherra fyrrverandi vegna Íslandsbankasölunnar.

Þar endurtók hún það sem Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu, sagði á þingi 11. október að armslengd væri ekki í lögum sem snertu bankasöluna.

Þessar fullyrðingar þingmannanna standast ekki. Flutningsmaður laganna um bankasýsluna, þáv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sagði 22. júní 2009 þegar hann flutti frumvarp sitt á þingi:

„Það sem hér er verið að reyna að gera er akkúrat að færa málin af hinu pólitíska borði, út úr ráðuneytinu og búa til armslengd á milli stjórnmálanna, framkvæmdarvaldsins og löggjafans þess vegna, og þeirrar framkvæmdar sem þarna á að fara fram.“

Hér fer ekkert á milli mála: „armslengdin“ var lögfest. Engu er líkara en þingmennirnir telji að regla sem kennd er við armslengd hafi þurft að lögfesta með því að hafa orðið „armslengd“ í texta laganna. Sé svo verða þær að segja það en ekki láta eins og það hafi ekki verið tilgangur laganna að tryggja þá skipan með bankasýslunni sem birtist þegar hún kom fram fyrir hönd fjármálaráðherra við sölu Íslandsbanka.

1379077

Katrín Jakobsdóttir í ræðustól alþingis (safnmynd, mbl.is/Kristinn Magnússon).

Rangfærslu sína flutti Þórhildur Sunna þegar hún lagði spurningu fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni vegna álits umboðsmanns.

Forsætisráðherra vék ekki að orðum Steingríms J. í svarræðu sinni en ráðherrann ætti að kynna sér umræðurnar um bankasýslufrumvarpið á sínum tíma. Forsætisráðherra minntist þess hins vegar að skrifstofa alþingis hefði sent frá sér minnisblað „þar sem sérstaklega var ítrekað að Bankasýsla ríkisins hlyti að teljast sjálfstætt stjórnvald sem lyti ekki yfirstjórn ráðherra heldur sérstakrar stjórnar“.

Ráðherrann sagði að nú hefði umboðsmaður alþingis komist að annarri niðurstöðu í áliti sínu og taldi hún „mjög mikilvægt“ að tekið yrði mið af því í framhaldinu.

Þórhildur Sunna túlkaði álit umboðsmanns þannig að búið væri „að afgreiða það út af borðinu“ að bankasýslan væri „einhver sjálfstæð stofnun“ sem bæri ein ábyrgð á sjálfri sér og ráðherrar hefðu ekkert um að segja og það væri einhver armslengd þarna á milli.

Fróðlegt væri að vita hvort þessi túlkun píratans sé rétt að mati umboðsmanns. Við því fást líklega aldrei svör. Orð þingmannsins sýna hins vegar að hún telur að umboðsmaður hafi vegið að grunnþætti stjórnsýslunnar á þessu sviði með áliti sínu og skapað þannig óvissu. Það getur varla þjónað vönduðum stjórnarháttum að túlkun á borð við þessa á álitinu skjóti rótum, ekki síst vegna þess að hún er reist á ósannindum um að bankasýslan eigi ekki að skapa margrædda armslengd.