1.7.2019 11:57

Þórhildur Sunna ræðst á forsætisnefnd

Málið fór einmitt í þann farveg sem formaður þingflokks Pírata taldi bestan fyrir rúmu hálfu ári.

Nú liggur fyrir úrskurður siðanefndar alþingis og staðfesting forsætisnefndar um að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, hafi gengið fram á ósiðlegan hátt gegn Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, með ummælum sínum. Þórhildur Sunna svarar á þann veg í þættinum Sprengisandi sunnudaginn 30. júní að forsætisnefndin sé „gjörspillt“.

1100825Þessi ljósmynd af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur eftir Eggert birtist á mbl.is.

Atlaga þingmanna pírata að Ásmundi Friðrikssyni hefur staðið mánuðum saman. Hún var meðal annars til umræðu á alþingi 7. nóvember og þá sagði Þórhildur Sunna:

„Ég hvet hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að taka sjálfa sig og orð sín alvarlega, fara bara með þetta alla leið og senda erindi til forsætisnefndar, þar sem þetta á heima, og hætta að góla hérna endalaust um að forseti eigi að gera eitt og annað.“

Málið fór einmitt í þann farveg sem formaður þingflokks Pírata taldi bestan fyrir rúmu hálfu ári. Þegar niðurstaða málsmeðferðar forsætisnefndar þingsins umturnast Þórhildur Sunna. Það er ekki nóg með að hún lýsi forsætisnefndina „gjörspillta“ hún segir hana einnig stjórnast af kvenfyrirlitningu:

„Þetta er sama forsætisnefnd og klúðrar að öllu leyti allri málsmeðferð í Klaustursmálinu [sem snýr að þingmönnum Miðflokksins] en kýs að hengja sig í einhvern orðhengilshátt og gildisdóma um hvernig ég tjái mig, en ekki hvað ég segi eða hvert að það sé satt eða logið, og lítur fram hjá öllum rökum um tjáningarfrelsi þingmanna og mína skyldu til að tjá mig um atburði líðandi stundar og til þess einmitt að vinna gegn spillingu og vinna fyrir því að það gildi réttarríki á Íslandi. Ég kalla þá forsætisnefnd gjörspillta af samtryggingu karlaklíkunnar sem að neitar að taka afstöðu til nokkurs nema bara mína framkomu, ungrar konu í stjórnarandstöðu sem að móðgaði miðaldra kall. Ég segi bara nei takk við þessu áliti.“

Þegar Þórhildur Sunna flutti ræðu 4. desember 2018 um framgöngu þingmanna á Klausturbar 20. nóvember hóf hún hana á þessum orðum:

„Um netheima flakkar nú lítið kvæði sem kallast Bæn narcissistans. Það hljóðar svo, í lauslegri þýðingu minni, með leyfi forseta:

Þetta gerðist ekki.

Ef það gerðist var það ekki svo slæmt.

Ef það var slæmt er það samt ekkert stórmál.

Ef það er eitthvað mál meinti ég ekkert með því.

Og ef ég meinti eitthvað með því áttirðu það skilið.“

Viðbrögð Þórhildar Sunnu við niðurstöðu forsætisnefndar alþingis sem sagt var frá 26. júní 2019 eru í samræmi við þetta ljóð sem hún flutti. Hún segist nú íhuga að kvarta vegna málsins til Evrópuráðsins eða Alþjóðaþingmannasambandsins.

Forsætisnefnd alþingis ætti að huga að eigin fulltrúa á þing Evrópuráðsins í Strassborg þar sem Þórhildur Sunna var kjörin formaður laganefndar sem sósíalisti þótt hún sitji á alþingi sem pírati. Strassborgar-þingmönnum þætti ef til vill forvitnilegt að skoða þetta í ljósi siðareglna.