18.5.2019 12:07

Þórhildur Sunna brýtur siðareglur

Nú kemur til kasta forsætisnefndar alþingis að fjalla um þetta ráðgefandi álit. Hafi hún efni þess að engu verður siðanefndin marklaus. Næsta skref yrði að afmá hana

Ráðgefandi nefndin, jafnan kölluð siðanefnd alþingis, sem sendir forsætisnefnd alþingis álit um hvort þingmenn fari að siðareglum hefur komist að þeirri niðurstöðu að þingflokksformaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hafi ekki gert það í Silfri sjónvarpsins sunnudaginn 25. febrúar 2018 þegar hún sagði „rökstuddan grun“ um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði dregið sér fé. Hefði hún „skaðað ímynd“ alþingis með ummælunum.

Sé ráðgefandi álit siðanefndarinnar lesið, en það birtist hér , er ljóst að til alls rökstuðnings er vandað. Ólíklegustu menn gera þó lítið úr því og telja það jafnvel staðfesta þá skoðun að siðanefndir séu ekki til neins, geri þær ekki illt verra.

4VVGQAZpLQmm_730x1800_w_Fv_VUtÞórhildur Sunna í sjónvarpssal. 

Þar má til dæmis nefna þann sem fjölmiðlamenn leita gjarnan til sem einskonar yfirsiðameistara, Jón Ólafsson, heimspeking og prófessor við Háskóla Íslands. Jón sagði á Facebook 17. maí að siðanefndin hefði fallið í þá gryfju að:„...skilja orðin „rökstuddur grunur“ svo, að þau hljóti að hafa þá tilteknu lögfræðilegu merkingu, að minnsta kosti í meðförum Alþingismanns, að með þeim fullyrði hann/hún tilvist áþreifanlegra upplýsinga eða gagna um það sem grunurinn beinist að.“

Þarna lítur Jón Ólafsson fram hjá því að eftir að Þórhildur Sunna lét orðin falla í Silfrinu settist hún við tölvu sína og tók að fræða lesendur Facebook-síðu sinnar um efni 248. gr. almennra hegningarlaga þar sem fjallað er um fjársvik. Síðan segir hún að það sé eðlilegt að skoða „grunsamlegt akstursbókhald Ásmundar Friðrikssonar í þessu ljósi, það er fullkomlega eðlilegt í réttarríki að hann sæti rannsókn vegna þessa, rétt eins og hver annar sem uppvís verður að vafasamri fjársöfnun úr vösum skattgreiðenda.“

Nú kemur til kasta forsætisnefndar alþingis að fjalla um þetta ráðgefandi álit. Hafi hún efni þess að engu verður siðanefndin marklaus. Næsta skref yrði að afmá hana. Vafalaust myndast bandalag um það milli fulltrúa Pírata og Miðflokksins í forsætisnefndinni. Miðflokksmenn óttast álit nefndarinnar vegna Klaustursmálsins sem hún hefur til meðferðar.

Í ræðu um störf þingsins 4. desember 2018 lýsti Þórhildur Sunna viðbrögðum þingmanna Miðflokksins vegna Klausturmálsins með þessum orðum:

„Þetta gerðist ekki.

Ef það gerðist var það ekki svo slæmt.

Ef það var slæmt er það samt ekkert stórmál.

Ef það er eitthvað mál meinti ég ekkert með því.

Og ef ég meinti eitthvað með því áttirðu það skilið.“

Að Þórhildur Sunna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson standi bæði í þessum sporum núna og andspænis siðanefnd alþingis sýnir órannsakanleika veganna.