19.7.2023 10:08

Þórhildur Sunna klórar í bakkann

Í skýrsludrögum Sigurðar er í raun ekkert sem hönd á festir enda ekkert fullrannsakað. Voru það mistök hjá Þórhildi Sunnu að birta skjalið?

Í skýrslu ríkisendurskoðunar um starfsemi Lindarhvols ehf. frá því í apríl 2020 segir að félagið hafi skilað góðri niðurstöðu, virði eignanna sem félaginu var falið að selja hafi á á starfstíma félagsins aukist um 75,9 ma. kr. Kostnaði við umsýslu eignanna var haldið í lágmarki. Almennt hafi fengist viðunandi verð fyrir eignirnar. „Í stuttu máli má segja að hugmyndafræðin að baki þessu fyrirkomulagi, þótt óvenjulegt hafi verið, hafi gengið upp,“ segir ríkisendurskoðun.

Þessi niðurstaða er eitur í beinum stjórnarandstöðunnar. Álit ríkisendurskoðunar hefur ekki verið afgreitt úr þingnefnd. Stöðugur áróður hefur verið gegn niðurstöðu ríkisendurskoðunar vegna sárinda fáeinna fjármálamanna sem töldu óréttmætt að tilboði þeirra í ákveðnar eignir var hafnað. Fóru þeir í mál sem þeir töpuðu í héraðsdómi. Framhald á andróðri gegn niðurstöðu ríkisendurskoðunar kann að vera til undirbúnings áfrýjun ágreiningsmálsins til landsréttar.

Til að tryggja hlutlægt eftirlit með starfsemi Lindarhvols ehf. og hvort félagið starfaði eftir samningi þess og fjármála- og efnahagsráðuneytisins var ríkisendurskoðun árið 2016 falið að sinna þessu eftirliti. Sveinn Arason, þáverandi ríkisendurskoðandi, var bróðir stjórnarformanns Lindarhvols ehf. og vék því sæti. Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, var settur eftirlitsmaður með starfsemi Lindarhvols en hætti starfinu 2018 þegar nýr ríkisendurskoðandi, Skúli Eggert Þórðarson, var kjörinn af alþingi enda var hann ekki vanhæfur eins og forveri hans. Tók ríkisendurskoðun við gögnum Sigurðar sem greip jafnframt til þess óvenjulega ráðs að senda þau til þáv. forseta alþingis og fjármála- og efnahagsráðuneytsins. Ríkisendurskoðun bannaði birtingu á hálfunnu gögnunum, þau stæðust ekki birtingarkröfur stofnunarinnar. Á þessu banni hefur verið japlað síðan.

1425678-1-Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata (samsett mynd: mbl.is).

Hér er enn ástæða til að upplýsa um efnisþætti þessa máls. Kjarni þess vefst greinilega fyrir mörgum eins og sjá mátti til dæmis á mbl.is þriðjudaginn 18. júlí þar sem Inga Þóra Pálsdóttir ræðir við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, formann þingflokks Pírata, sem segir Sigurð ekki hafa brotið lög nú í sumar þegar hann dreifði skýrsludrögum sínum til stærri hóps manna en áður, meðal annars til Þórhildar Sunnu. Hún birti skjalið síðan opinberlega. Orð Þórhildar Sunnu um hvort lögbrot hafi verið framið eða ekki eru einfaldlega marklaus, aðeins dómarar geta úrskurðað um slíkt. Að mbl.is sjái ástæðu til að fá mat þingflokksformanns Pírata á því hvað sé löglegt eða ólöglegt í þessu efni er dæmi um í hvert öngstræti þessarar umræður hafa ratað.

Í skýrsludrögum Sigurðar er í raun ekkert sem hönd á festir enda ekkert fullrannsakað. Voru það mistök hjá Þórhildi Sunnu að birta skjalið?

Ein bitastæð setning er í löngu viðtali mbl.is við Þórhildi Sunnu þegar hún segir: „Það sem mér finnst kannski áhugavert er að spyrja hvers vegna skipti svona miklu máli að halda þessu leyndu fyrst að það er ekkert merkilegt í þessu?“ Þarna birtist málefnalega uppgjöfin enda snýst þetta allt hjá stjórnarandstöðunni um fyrirmæli og form. Efni málsins og góðan árangur af starfsemi Lindarhvols ehf. á að reyna að fela með innantómum upphrópunum.