16.6.2020 9:41

Þórhildur Sunna hættir

Tóninn í þessari bókun nefndarformannsins ber ekki vott um mikla virðingu fyrir samnefndarfólki Þórhildar Sunnu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sætti fyrst alþingismanna ámæli siðanefndar vegna ummæla sinna um annan þingmann. Við kjör Þórhildar Sunnu til formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd naut hún aðeins stuðnings stjórnarandstæðinga, það er minnihlutans. Brynjar Nielsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bókaði að hann gæti ekki stutt hana til formennsku vegna viðbragða hennar og lítilsvirðingar gagnvart alþingi og viðkomandi nefndum eftir að álit siðanefndarinnar gegn henni birtist.

1161707Þórhildur Sunna við nefndarstörf á allþingi (mynd mbl.is/Hari).

Vegna Samherjamálsins svonefnda beitti Þórhildur Sunna sér fyrir „frumkvæðisathugun“ í nefnd sinni til að koma Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úr embætti. Meirihlutinn batt enda á athugunina með því að standa að bókun sem Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði fram í nefndinni eftir fund þar með gestum 4. júní sl. Í bókuninni sagði:

„Eftir umfjöllun nefndarinnar liggur eftirfarandi fyrir:

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra. Samkvæmt lögum metur ráðherra hæfi sitt sjálfur og ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag á því mati hafi farið í bága við lög og reglur. Ég tel frekari könnun tilgangslausa og tel ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa frumkvæðisathugun innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“

Þá bókaði Þórhildur Sunna með stuðningi minnihluta nefndarinnar:

„Afstaða meiri hlutans ber merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minni hlutans á þingi, ýtir undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirðir sérstakt eftirlitshlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og er til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því.“

Tóninn í þessari bókun nefndarformannsins ber ekki vott um mikla virðingu fyrir samnefndarfólki Þórhildar Sunnu.

Þeir sem fylgdust með útsendingu frá opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að morgni mánudags 15. júní þar sem Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, sat fyrir svörum vegna moldviðrisins sem Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, stóð fyrir af litlu tilefni í þágu Þorvaldar Gylfasonar, sáu og heyrðu hvernig Þórhildur Sunna kom fram við ráðherrann. Látæðið og orðbragðið var ekki til þess fallið að ýta undir samúð með henni.

Nokkrum klukkustundum eftir þennan nefndarfund sem endaði á svipaðan hátt fyrir minnihlutann og aðförin að Kristjáni Þór Júlíussyni stóð Þórhildur Sunna í ræðustól alþingis og lýsti sjálfri sér sem píslarvotti. Persóna hennar væri „sífellt“ dregin ofan „í svaðið“: „Ég tek ekki þátt í því. Ég býð ekki upp á það. Ég býð ekki upp á þetta skálkaskjól. Ég býð ekki upp á að meiri hlutinn hafi eitthvert skjól í því að níða mig og mína persónu til að forðast að sinna eftirlitshlutverki nefndarinnar.“

Með þessum skýringum sagði Þórhildur Sunna af sér formennsku í nefndinni. Þetta snýst sem sagt allt um hana og af því að hún hafði ekki sitt fram hætti hún.