Þorgerður Katrín og Renew-flokkurinn
Þingflokkur evrópsks flokkahóps Viðreisnar á ESB-þinginu myndi ekki orða ályktun á þennan veg um samstarf og stuðning við formann Viðreisnar á stóli utanríkisráðherra án vitundar formannsins og vilja.
Eina leið íslenskra stjórnvalda til að tryggja órskorað vald sitt yfir nýtingu auðlinda á frá 12 mílum til 200 mílna í lögsögu Íslands við aðild að Evrópusambandinu (ESB) er með sérreglu.
Sérregla fæst með einróma samþykki leiðtogaráðs ESB og staðfestingu þjóðþinga ESB á henni. Án hennar ráða atkvæði aðildarlanda nýtingu auðlinda innan 200 mílna, það er meirihluti aðildarríkja ákveður nýtinguna.
Íslensk stjórnvöld kynntust slíkri atkvæðagreiðslu á dögunum þegar tekist var á um verndartolla ESB vegna járnblendis. Þar naut málstaður Noregs og Íslands stuðnings ríkjanna sex sem eru með löndunum í NB8-hópnum svonefnda en auk þess greiddi fulltrúi Ungverjalands atkvæði gegn verndartollinum.
Alls voru 20 ríki innan ESB annarrar skoðunar. Ísland gekk síðan í lið með fjórum af þeim ríkjum með ákvörðun um að taka ekki þátt í Júróvisjón.
Þeirri spurningu hefur verið beint til ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hvort gerð verði krafa um sérreglu vegna 200 mílnanna gagnvart ESB. Ekkert svar hefur fengist við þessari lykilspurningu. Það birtist á hinn bóginn á óbeinan hátt í nýlegri ályktun ESB-þingsins og viðbrögðum utanríkisráðherra vegna hennar.

Þingflokkur evrópska flokkahópsins sem Viðreisn tengist, Renew-þingflokkurinn, beitti sér fyrir ályktun á ESB-þinginu um stuðning við aðild Íslands að ESB þar sem gert er ráð fyrir aðgangi að auðlindum Íslands.
Í ályktuninni segir að Ísland, Noregur og Grænland hafi strategic importance due to natural resources and renewable energy. Þarna er vikið beint að náttúruauðlindum og endurnýjanlegri orku þegar höfðað er til stuðnings ESB-þingmanna við tillögu sem snýst í raun um aðild Íslands að ESB.
Þá segir í ályktuninni að ESB-þingið: Encourages Iceland, Norway and Greenland to explore the benefits of EU membership. Þjóðir Íslands, Noregs og Grænlands eru hvattar til að kynna sér kosti ESB-aðildar. Að það sé gert í ályktun sem að formi snýst um norðurslóðir sýnir að hún þjónar öðrum tilgangi.
Loks skal hér nefnt þetta ákvæði ályktunarinnar: The EU stands ready to work with the Government of Iceland to raise awareness of the benefits of EU membership and support preparations for renewed accession negotiations if Iceland activates its application.
Þarna er beinlínis ályktað um samstarf af hálfu ESB við ríkisstjórn Íslands til að vekja athygli Íslendinga á hvaða hag þeir hefðu af aðild að ESB og til stuðnings við nýjar aðlögunarviðræður virki Íslendingar ESB-umsókn sína að nýju.
Þingflokkur evrópsks flokkahóps Viðreisnar á ESB-þinginu myndi ekki orða ályktun á þennan veg um samstarf og stuðning við formann Viðreisnar á stóli utanríkisráðherra án vitundar formannsins og vilja.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra brást hin versta við fyrirspurn Ingibjargar Davíðsdóttur um ályktun ESB-þingsins á alþingi fimmtudaginn 11. desember. Ráðherrann sagði:
„Það er verið að brigsla mér um það að erlendar stofnanir eða erlend ríki hafi einhver áhrif á utanríkisstefnu Íslands. Hvers konar della er þetta? Hvað er verið að væna mann hér um?“