Þorgerður Katrín herðir tökin
Skýran lærdóm má draga af þessum tveimur málum, gullhúðuninni vegna blaðamannafundarins og forgangstrúnaðinum við viðskiptastjóra ESB.
Blaðamannafundur Ursulu von der Leyen á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli 17. júlí 2025 verður í minnum hafður fyrir margt. Eitt er krafa utanríkisráðuneytis Íslands um að þeir blaðamenn sem kæmu til fundarins sendu fyrst inn spurningar sínar til ráðuneytisins.
Blaðamanni Morgunblaðsins þótti þetta óvenjuleg beiðni og vakti máls á henni í spurningu til von der Leyen á fundinum. Hún kannaðist ekkert við málið. Blaðið hélt áfram rannsókn sinni á uppruna þessarar kröfu. Utanríkisráðuneytið benti á ESB og í blaðinu í dag (28. júlí) segir Paulu Pinho, aðaltalsmaður von der Leyen, að aðeins hafi verið óskað eftir vísbendingu frá fjölmiðladeild utanríkisráðuneytisins um hvað kynni að verða efni spurninga blaðamanna á fundinum á flugvellinum.
Í sjálfu sér er eðlilegt að fyrir fund með blaðamönnum í ókunnu landi spyrji aðstoðarmenn svaranda tengilið sinn í hópi heimamanna hvað hann telji að muni bera hæst í spurningum með hliðsjón af umræðum í viðkomandi landi.
Viðbrögð embættismanna utanríkisráðuneytisins bera hins vegar með sér öll einkenni öfgakenndrar gullhúðunar, það er að gengið er mun lengra en felst í upphaflegu tilmælunum. Utanríkisráðuneytið hefur hafnað beiðni Morgunblaðsins um að sýna tilmælin sem ráðuneytinu bárust frá ESB vegna blaðamannafundarins.
Á Lögbergi 17. júlí 2025: Kristrún Frostadóttir, Ursula von der Leyen og Þorgerðue Katrín Gunnarsdóttir (mynd: ESB/vefsíða Þingvalla).
Blaðamannafundur von der Leyen varð tilefni sérstaks fundar í utanríkismálanefnd alþingis mánudaginn 21. júlí. Þá vildi svo illa til að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra lét hjá líða að skýra nefndarmönnum frá alvarlegu ágreiningsefni við ESB sem hótar að rjúfa EES-samstarfið og leggja verndartoll á stál og kísiljárn frá Noregi og Íslandi.
Utanríkisráðherra segir í Morgunblaðinu í dag að hún hafi fengið vitneskju um áform ESB í samtali við viðskiptastjóra ESB fimmtudaginn 10. júli en hann hafi beðið sig um trúnað. Eftir fundinn í utanríkismálanefnd sagði ráðherrann „alveg ljóst að tilgangur heimsóknar von der Leyen hafi fyrst og fremst verið til að gæta að viðskiptahagsmunum í tengslum við EES-samninginn“.
Þrátt fyrir þetta segja fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem sátu fund utanríkismálanefndar að utanríkisráðherra hafi ekki kynnt kísiljárnsmálið þar. Ráðherra sakar stjórnarandstöðuna um „valkvæða hlustun“ en segir í hinu orðinu að hún hafi orðið að gæta trúnaðar gagnvart viðskiptastjóra ESB. Sá trúnaður vó sem sagt svo þungt að hún treysti sér ekki til trúnaðarsamtals við íslenska þingmenn um brýnt hagsmunamál sem þó var komið í hámæli í Noregi.
Skýran lærdóm má draga af þessum tveimur málum, gullhúðuninni vegna blaðamannafundarins og forgangstrúnaðinum við viðskiptastjóra ESB: Utanríkisráðuneytið hefur hafið ESB-aðlögunarferlið og þjónustar Brusselmenn, ESB-embættismennina, betur en íslenska heimamenn. Ráðuneytið starfar á nýrri bylgjulengd með mótandi hlutverk innan alls stjórnarráðsins um að ekkert megi skapa stækkunardeild ESB erfiðleika í ferlinu fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þorgerður Katrín vill verða hæstráðandi til sjós og lands.