3.10.2018 11:19

Þórdís Lóa og hrútskýringar borgarstjóra

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, stendur gegn stefnumálum flokks síns til að styðja yfirlætisfulla og lítillækkandi framkomu borgarstjóra í garð konu.

Í stefnu Viðreisnar, flokknum á miðjunni, segir meðal annars um menntamál:

„Viðreisn styður fjölbreytt rekstrarform menntastofnana sem leið til að fjölga valkostum í námi. Að sama skapi er lögð áhersla á að hagnaður af starfsemi, sem kostuð er af opinberu fé, renni aftur inn í starfsemi viðkomandi stofnunar.“

Þriðjudaginn 2. október ræddi borgarstjórn Reykjavíkur tillögu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um jöfn fjárframlög með börnum í leik- og grunnskólum, óháð rekstrarformi. Tillögunni er ætlað að koma í veg fyrir innheimtu skólagjalda og að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að sækja ólíka skóla borgarinnar. Viðreisn treysti sér ekki til að styðja tillöguna þrátt fyrir ofangreinda grunnstefnu í menntamálum og fögur fyrirheit í kosningabaráttunni sl. vor.

Dsc04222Myndin birtist á vefsíðu Reykjavíkurborgar við Breiðholtslaug þegar nýr meirihluti borgarstjórnar var kynntur í sumarbyrjun 2018.

Eftir að meirihlutinn hafði ýtt tillögunni í borgarráð til að svæfa hana þar sagði Hildur á FB-síðu sinni:

 „Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, taldi svo ástæðu til að hrútskýra fyrir mér í löngu máli hvernig fjárframlög til grunnskóla og leikskóla í borginni eru reiknuð. Hann sagði tillöguna vanhugsaða og byggða á þekkingarleysi. Er þetta ekki dæmigert?“

Sögnin „að hrútskýra“var skýrð á þennan hátt af Láru Höllu Sigurðardóttur á vefsíðunni Nútímanum 27. september 2016:

„Hrútskýring er íslensk þýðing á enska hugtakinu mansplaning sem er sett saman úr orðunum man og explaning, eða karlmaður og að útskýra.

Hugtakið, sem er sett saman úr orðunum hrútur og útskýra, er notað yfir það þegar einhver útskýrir eitthvað fyrir einhverjum á yfirlætisfullan og lítillækkandi hátt, oftar en ekki konu, líkt og viðkomandi viti ekkert um málið.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, stendur gegn stefnumálum flokks síns til að styðja yfirlætisfulla og lítillækkandi framkomu borgarstjóra í garð konu.

Nýlega gengu þrír heiðursborgarar Reykjavíkur á fund borgarstjóra og formanns borgarráðs og mótmæltu að rofin yrði grafarró í Víkurkirkjugarði með hótelbyggingu. Þórdís Lóa svaraði að ekki mætti gleyma því að byggingar stæðu án tillits til nýtingar þeirra, hús reist sem hótel kynni síðar að verða skóli! Hvaða orð á nota um svo djúpvitra skýringu?