21.10.2017 10:41

Þolmörk þjóða gagnvart alþjóðavæðingunni

Það er einmitt ein af þverstæðum hnattvæðingarinnar að í byggðum og bæjum finnst fólki mikilvægara en áður að standa vörð um sitt, þar á meðal menningarlega arfleið sína

Þjóðarflokkurinn undir forystu Sebastians Kurz (31 árs) sigraði í þingkosningunum í Austurríki sunnudaginn 15. október. Þórgnýr Einar Albertsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar um Kurz í blaðið í dag (21. október) og segir meðal annars:

„Ef til vill lagði Kurz grunninn að kosningasigri sínum árið 2015 þegar hann fór í auknum mæli að tala fyrir málstað þjóðernishyggjufólks. Fór hann meðal annars fram á að landamæragæsla Evrópusambandsins yrði hert í ljósi flóttamannastraums og kom frumvarpi í gegnum þingið sem nefndist Islamgesetz, eða lög um íslam. Lögin kveða meðal annars á um að erlendir aðilar megi ekki fjármagna byggingar moska eða greiða ímömum laun. Sagði Kurz á sínum tíma að lögunum væri ætlað að stemma stigu við áhrifum róttækra íslamista í Austurríki.“

Segir Þórgnýr Einar að með þessari stefnu hafi Kurz kallað á reiði manna í Frelsisflokki Austurríkis, hann hafi farið inn á þeirra atkvæðamið með því að höfða til þjóðerniskenndar Austurríkismanna.

40959516_354Sebastian Kurz

Segir í Fréttablaðinu:

„Skiljanlega urðu Frelsisflokksmenn ekkert sérstaklega ánægðir með Kurz. Minntu þeir sífellt á í kosningabaráttunni að flokkurinn hefði verið leiðandi afl þegar kæmi að því að taka á flóttamannavandanum og íslam og að hann hefði barist fyrir hertri landamæragæslu.

Hin nýja ímynd Þjóðarflokksins stuðlaði að því að virkja áður óáhugasama kjósendur. Kurz setti sjálfan sig í fyrsta sæti, talaði um „hinn nýja Þjóðarflokk“ og lofaði að binda enda á ólöglegan innflutning fólks til þess að tryggja öryggi Austurríkismanna.“

Þessi lýsing er aðeins enn ein staðfestingin á því hve kjósendur skiptir miklu að vita að þeir sem bjóða sig fram til að veita þjóð sinni forystu beri í raun hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti. Það er einmitt ein af þverstæðum hnattvæðingarinnar að í byggðum og bæjum finnst fólki mikilvægara en áður að standa vörð um sitt, þar á meðal menningarlega arfleið sína. Þetta sést til dæmis í Katalóníu um þessar mundir.

Hér á landi eins og víðar í Evrópu er það einkenni á málflutningi vinstrisinna að gera lítið úr þessum tilfinningum sem spretta af þjóðernis- og ættjarðarást. Í samtali sem ég átti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, á ÍNN fer hún yfir verkefni sem líta ber til vegna mikils straums ferðamanna til landsins og segir að ekki síst beri að huga að félagslega þættinum, það er áhrifunum á íslenskt samfélag.

Viðtal við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur

Þetta er réttmæt ábending. Ferðaþjónusta er allt annars konar atvinnugrein en til dæmis stóriðja. Ferðamennirnir verða hluti af daglegu lífi landsmanna, þeir keppa við þá um íbúðir, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, nýtingu vegakerfis og margvíslegra annarra innviða sem reistir hafa verið á íslenskum forsendum með tilliti til þarfar þjóðarinnar sjálfrar. Hvar eru þolmörkin í þessu efni?

Augljóst er að koma tilhæfulausra hælisleitenda frá öruggum Evrópulöndum fór út fyrir öll mörk. Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, greip til ráðstafana sem vonandi hefur slegið á þennan straum.

Staðreynd er að aðeins innan Sjálfstæðisflokksins vekja menn máls á varðstöðu vegna alþjóðavæðingarinnar – ekki vegna þess að þeir vilji snúa af braut hennar heldur til að gæta þess að andvaraleysið verði ekki til skerpa andstæður í samfélaginu og skapa sundrung. Til þess kemur sé málið ekki rætt og spyrnt við fótum þar sem nauðsynlegt er.

Á sama tíma og hvarvetna í Evrópu er unnið að því að hækka þröskulda við landamæri vilja vinstrisinnar á Íslandi lækka þröskuldinn hér. Allir skynsamir menn sjá að það leiðir til stórvanda. Unnt er að spyrna gegn honum með því að hafna VG, Samfylkingu og Pírötum í kosningunum eftir viku.