Þögn blaðamannaformanns
Hér skal tekið undir með Reyni Traustasyni þegar hann segir þetta mál „hið vandræðalegasta“ fyrir ríkisútvarpið og blaðamannafélagið.
Þeir sem muna hörkuna í blaðamennsku Fréttablaðsins í þágu Baugsmanna, eigenda blaðsins fyrir tæpum 20 árum þegar fjölmiðlamálið og Baugsmálið bar hátt hljóta að staldra við þegar þau eru tekin til við að deila um miðlun upplýsinga og fréttir Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins og formaður Blaðamannafélags Íslands.
Þau störfuðu saman á Fréttablaðinu og lágu ekki á liði sínu við birtingu efnis sem kom eigendum þess vel. Fyrir nær réttum 18 árum, 24. september 2005, birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu eftir Sigríði Dögg undir fyrirsögninni: Höfðu samráð um mál Jóns Geralds gegn Baugi. Þar var sagt frá því að Styrmir Gunnarsson, Kjartan Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson hefðu fundað um Baugsmálið áður en það var kært til lögreglu.
Uppljóstrun af þessu tagi þótti skipta miklu því að kenning Baugsmanna var að kæra og rannsóknir á hendur þeim væri af pólitískum toga og stjórnað frá æðstu stöðum. Ævintýranleg samsæriskenning sem þjónaði tilgangi á þessum árum meðal annars í þágu Samfylkingarinnar.
Frétt Sigríðar Daggar var reist á gögnum sem stolið var úr tölvu Jónínu Benediktsdóttur. Höfðu ljósrit af gögnum úr tölvu hennar borist Sigurjóni M. Egilssyni, fréttastjóra Fréttablaðsins. Hann sagði síðar að Fréttablaðið hefði líklega greitt þeim sem stal tölvupóstum Jónínu. Sigurjón M. sagðist ekki vera viss en hann hefði „oftsinnis hugsað um þetta“. Sigurjón M. starfar nú með bróður sínum Gunnari Smára á netmiðli sósíalista.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands (mynd: mbl.is).
Í dag, fimmtudaginn 14. september, skýrir Reynir Traustason frá því á vefsíðu Mannlífs að Sigríður Dögg hafi „hunsað spurningar blaðamanns Mannlífs um að opinbera nákvæmlega hvert vandamál hennar gagnvart skattinum var og þá upplýsa hvort og í hverju Páll [Vilhjálmsson] sé að segja óstatt. Þögnin ein er svarið. Sjálf er hún þekkt fyrir hörku í starfi sínu og lætur viðmælendur sína ekki komast upp með neinn moðreyk“.
Páll „fullyrðir að hún hafi sloppið með skrekkinn eftir að hafa skotið undan tugmilljónum frá skatti“. Sigríður Dögg segir Pál „dæmdan æruníðing og samkvæmt því ekki marktækan“ svo að vitnað sé í pistil Reynis sem lýkur orðum sínum um stöðu Sigríðar Daggar á þessum orðum:
„Málið allt er hið vandræðalegasta fyrir RÚV sem á einhverjum tímapunkti kallaði mál á borð við þetta skattsvik. Fyrir liggur að ef skúrkurinn Páll hefur rétt fyrir sér þá er Sigríði Dögg hvorki sætt í Blaðamannafélaginu eða í starfi sínu hjá RÚV. Málið er allt hið vandræðalegasta þar [til] hún sýnir á spilin sín. Undir í málinu er heiður Blaðamannafélags Íslands og Ríkisútvarpsins og ný viðmið í flutningi frétta þegar um er að ræða skattasniðgöngu …“
Hér skal tekið undir með Reyni Traustasyni þegar hann segir þetta mál „hið vandræðalegasta“ fyrir ríkisútvarpið og blaðamannafélagið. Því miður er þetta þó ekki eina vandræðamálið sem snertir báða þessa aðila og reynt er að sópa undir teppið með þögn sem öðrum yrði ekki liðin við flutning frétta af einhverju sambærilegu.