15.10.2022 12:19

Þöggunarkrafa og rasistastimpill

Þöggunarkrafa um þingnefnd sem fjallar um málefni sem snertir grundvallarþátt fullveldisins, að ákveða hverjir njóti réttar til að vera ríkisborgarar.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata og talsmaður þeirra í útlendingamálum, viðrar skoðanir sínar á forsíðu Morgunblaðsins í dag (15. okt).

Það er gömul aðferð þeirra sem fara með útlendingamálin inn á grátt svæði og taka þar ámælisverðar ákvarðanir að skjóta sér síðan á bak við þá skoðun að þau megi ekkert segja um ákvörðun sína af því að hún snerti hag einstaklings.

Nú er það svo að ákvarðanir af þessu tagi eru fordæmisgefandi því að allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum. Þótt þingmaðurinn tali á þann veg að hún geti ekki rætt mál einstaklings verður ákvörðun þingmannsins að fordæmi sem talsmaður þess sem ríkisborgararéttinn hlýtur notar hiklaust.

21315-281-Edit3Alþingishúsið (mynd: Alþingi/Bragi Þór Jósefsson).

Héraðsdómur féll í vikunni um mál manns sem lenti í töfum vegna COVID-19 faraldursins og lögmaður hans sagði í fjölmiðlum að þetta kynni að bæta réttarstöðu 200 hælisleitenda, þeir þyrftu hugsanlega ekki að sæta brottvísun án endurupptöku máls.

Þá segir pírata-þingmaðurinn „hryggilegt“ að dómsmálaráðuneytið upplýsi um hvernig staðið er að afgreiðslu mála í nefnd þar sem þingmaðurinn situr. Krafa Arndísar Önnu um þöggun nær ekki aðeins til málefna einstaklinga heldur til allra starfa þingnefndarinnar sem fjallar um málefni sem snertir grundvallarþátt fullveldisins, að ákveða hverjir njóti réttar til að vera ríkisborgarar.

Vegna þessara upplýsinga segir Arndís Anna „að verið sé að kasta rýrð á störf nefndarinnar og á einstaklinga“ sem hún leggur til að fái ríkisborgararétt og þingið síðan samþykkir. Það sem ráðuneytið gerði var að birta opinberlega úttekt útlendingastofnunar á því hvaða einstaklinga nefndin taldi verðuga sem ríkisborgara. Þetta mátti ekki af því að Arndís Anna veit að öllum þorra fólks bregður við að kynna sér efni málsins.

Hér hefur verið bent á samhljóminn í málflutningi þingmanna Pírata og Viðreisnar í útlendingamálum, Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er á svipuðu róli og í dag bætist Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, í hópinn með leiðara í blaði sínu.

Þar þykist ritstjórinn „hafa verulegar áhyggjur af vegferð Sjálfstæðisflokksins“. Flokkurinn sé orðin „hræddur“ og ali á „útlendingahatri eins og hver annar popúlískur veifiskati sem velur upphrópanirnar fram yfir ábyrga festu og stjórnvísi“.

Þetta orðaval ritstjórans sýnir aðeins í hvaða „gír“ hann vill að umræðurnar fari.

Píratinn vill fá að bauka við ráðstöfun ríkisborgararéttar á bak við luktar dyr og Samfylkingar-ritstjórinn grípur til rasistastimpilsins með tali um útlendingahatur.

Að láta að því liggja að, eins og ritstjórinn gerir, að málflutningur hans einkennist af málefnalegu hugrekki, ábyrgð, festu og stjórnvísi er argasta öfugmæli.

Komi fram hræðsla í umræðunum sem orðið hafa um útlendingamálin undanfarið er hún hjá þeim sem krefjast þöggunar og ráðast á viðmælendur sína með rasistastimplinum.