25.4.2021 13:55

Þjóðarmorðið á Armenum

Að Biden stígi þetta skref nú er áfall fyrir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, endurspeglar minna vægi hans í Washington en áður var.

Minningardagur þjóðarmorðs Tyrkja á Armenum var í gær, 24. apríl. Á árunum 1915 til 1923 var meirihluti 2,1 milljón Armena í Tyrklandi undir stjórn Ottómana rekinn frá heimilum sínum. Markmið stjórnvalda var að uppræta armenska þjóðarbrotið. Flæma Armena á brott, stela eignum þeirra og drepa þá.

Þjóðarmorðið hófst í fyrri heimsstyrjöldinni. Talsmenn Armena segja að því hafi verið miskunnarlaust haldið áfram að henni lokinni. Þegar tyrkneska lýðveldið var stofnað árið 1923 er talið að 1,5 milljón Armena hefði týnt lífi vegna herferðarinnar á hendur þeim í Tyrklandi. Tyrkir lýsa blóðbaðinu sem trúarlegum átökum þar sem bæði kristnir Armenar og múslimar í Tyrklandi urðu illa úti.

Árið 1967 var reist mikið minnismerki um þjóðarmorðið skammt frá Jerevan, höfuðborg Armeníu. Tíu árum síðar var ég þar í fylgdarliði Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra, í opinberri heimsókn til Sovétríkjanna. Síðan hefur mikil sorg Armena jafnan höfðað sterkt til mín. Minnismerkið gaf hörmungum þeirra sem þar er minnst sérstakan stað í huganum.

Static.politico.comMinningarathöfn í minnismerkinu mikla skammt frá Jerevan í Armeníu.

Undrun vekur hve stjórnvöld í Tyrklandi samtímans taka því illa þegar alls þessa er minnst. Reiði þeirra vegna þess sannast enn nú þegar Joe Biden, fyrstur Bandaríkjaforseta, vottar Armenum formlega samúð af virðingu fyrir þeim sem týndu lífi undir ógnarstjórn Ottómana og áréttar þann ásetning að koma í veg fyrir að slík grimmdarverk verði nokkru sinni framin að nýju. Forsetinn sagði þetta ekki gert til að varpa sök á einhvern heldur til að tryggja að það sem gerðist yrði aldrei endurtekið.

Tyrknesk stjórnvöld tóku þessum orðum mjög illa og höfnuðu með öllu fullyrðingum um þjóðarmorð. Tyrkir þyrftu ekki að læra neitt af neinum um eigin fortíð. Pólitísk tækifærismennska grefur mest undan friði og réttlæti, sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, á Twitter.

Á sínum tíma notaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseti orðið „þjóðarmorð“ um aðförina að Armenum án þess að það drægi dilk á eftir sér. Barack Obama gaf til kynna að hann mundi sem forseti stíga skref til Armena með viðurkenningu á þjóðarmorðinu sem hann gerði þó ekki. Joe Biden var varaforseti Obama og óttuðust margir Armenar í Bandaríkjunum að Biden segði eitt í kosningabaráttu um hlutskipti Armena en annað í Hvíta húsinu. Gleði þeirra er því einlæg þegar þeir fagna orðum Bandaríkjaforseta nú og telja langþráðu marki náð.

Að Biden stígi þetta skref nú er áfall fyrir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, endurspeglar minna vægi hans í Washington en áður var. Þótt Erdogan reyni að blása þetta upp sem árás á alla Tyrki staðfestir ákvörðunin nú dvínandi áhrif Erdogans sjálfs og skömm á framgöngu hans innan NATO og annars staðar.

Tillaga um að alþingi viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–1917 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni hefur verið flutt á nokkrum þingum, síðast 2019-2020 án þess að hljóta afgreiðslu. Að málið falli dautt hér en njóti stuðnings meðal æ fleiri nágrannaþinga verður sífellt undarlegra.