Þingvellir í Íslandssögunni
Þess verður minnst 2030 að 1100 ár verða liðin frá stofnun alþingis. Bók Jóns er tímabær og merkur vitnisburður um fyrstu 1000 árin.
Fimmtudaginn 6. nóvember var útgáfuhóf á vegum bókaútgáfunnar Sæmundar í Bókakaffi í Ármúlanum í tilefni af Þingvallabók – Annáll 930–1930 eftir vin minn og skólabróður Jón Kristjánsson, lögfræðing.
Það var fjölmenni í útgáfuhófinu í Bókakaffi við Ármúla.
Þetta er einstök bók að útliti og efni. Jón hefur unnið að henni í kyrrþey áratugum saman af mikilli elju við efnisöflun og skráningu. Meginmálið er 538 síður og aftan við það eru skrár yfir tilvísanir, rit um Þingvelli og nöfn. Nafnaskráin er frá bls. 555 til 623 og nær bæði til manna og staða. Myndir, sumar ómetanlegar, og skrá yfir þær eru á 75 blaðsíðum í bókarlok. Alls er því bókin um 700 bls.
Á bókarkápu segir réttilega að saga Íslands og íslensku þjóðarinnar komi hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Í bókinni sé sagt frá störfum alþingis sem þótt hafi annálsverð, auk þess sem minnst sé á nokkra af helstu viðburðum Íslandssögunnar.
Jón les úr bók sinni.
Í knöppum formála segir Jón að skiptar skoðanir séu um margt í langri sögu Þingvalla og nefnir fáein dæmi. Hér skulu tekin tvö úr formálanum:
Lögberg og lögrétta: Það er rétt að hafa í huga þegar deilt er um Lögberg eða lögréttu að Lögberg er örnefni, heiti á stað, en lögrétta var stofnun,sem ekki var alltaf á sama stað.
Drekkingarhylur: Við vitum hvar Drekkingarhylur er, en örnefnið fyrirfinnst ekki í Alþingisbókum og ekki heldur í annálum. Ár 1678 er sagt, að Margrétu hafi verið drekkt í Öxará og 1703 er sagt, að Katrínu hafi verið drekkt fyrir neðan lögréttuna. Við vitum ekki hvar öðrum var drekkt. Ein frásögn er um að karli hafi verið drekkt, það var árið 1589.
Miðað við heimildir ættu lýsingarnar á stöðunum að vera lágstemmdar.
Í samtali hefur Jón líkt bók sinni við konfektkassa, ekki sé líklegt að hún sé lesin spjaldanna á milli frá bls. 1 til 538 heldur hefji lesandinn kynni sín af bókinni með því að velja sér mola úr henni hvar sem er. Í texta frá 1798 segir:
„Lögmaðurinn Magnús Stephensen gaf til kynna, að sökum alþingis ónæðis og heilsuspillandi dragsúgs í gegnum gluggabrotið og opið lögréttuhús, um hvört hann biður nálega konglega embættismenn nú að vitna eftir sjón, sé hann við réttarhald í þessum vindhjalli nú orðinn lasinn og veikburða, svo hann ei treystist til að halda svo lengi áfram lögþinginu, sem þarf til dóms uppsagnar í síra Hólms og chirurgi Backmanns máli, vill ei heldur auka justizkassanum þarflausan kostnað með að halda hér lögréttumönnum uppi til málaloka, heldur afsegja í málinu endilegan dóm á sínu heimili, Leirá...“
Árið 1799 setti lögmaðurinn, Magnús Stephensen, lögþing í Reykjavík. „Þingið var háð í skólahúsinu á Hólavelli.“
Síðan hefur alþingi aðeins komið saman til hátíðarfunda á Þingvöllum. Þess verður minnst 2030 að 1100 ár verða liðin frá stofnun alþingis. Bók Jóns er tímabær og merkur vitnisburður um fyrstu 1000 árin.
Alþingishátíðin 1930 efldi sjálfstraust þjóðarinnar og rauf aldalanga einangrun – nú sækja um 1,5 milljón gesta Þingvelli heim ár hvert. Þar hefur með forsjálni tekist að skapa umhverfisvæna umgjörð um þennan mikla fjölda.