15.12.2018 10:19

Þingvellir eru góð fyrirmynd

Þarna er öðrum gefið gott fordæmi. Raunar er óskiljanlegt hvers vegna því hefur ekki verið fylgt víðar.

Hlé var gert á störfum alþingis í gær (14. desember) sem er óvenjulega snemmt en endurspeglar stjórnfestuna sem myndast hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru að vísu í sárum vegna heimilisvandræða. Miðflokkur og Flokkur fólksins eru stórlaskaðir eftir kráarfund forystumanna þingflokka þeirra 20. nóvember. Píratar keppast við að hylja innbyrðis ágreining sem hrakið hefur fólk úr Reykjavíkurdeild flokksins. Innan Samfylkingarinnar tiplar forystusveitin á tánum í kringum Ágúst Ólaf Ágústsson sem enginn veit hvort snýr að nýju til þingstarfa.

Á lokadegi þingsins fyrir hlé stofnaði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi, til umræðu um nauðsyn þess að hlú að náttúruauðlindinni í ljósi ferðamannastraumsins. Hvernig ætti að nýta þessa hana til að auka lífsgæði þjóðarinnar, koma til móts við ferðamenn, tryggja uppbyggingu innviða, eflingu byggða og skapa aukin verðmæti til að standa undir öflugu velferðarsamfélagi.

Samhljómur var í máli þingmanna úr öllum flokkum. Í lokaræðu sinni sagði Vilhjálmur:

„Þá vil ég líka nefna eitt gott dæmi um það sem hefur tekist vel hjá okkur, það er á Þingvöllum, sem er náttúrlega einn stærsti ferðamannastaður Íslands, fær yfir 1,5 milljón ferðamanna á hverju ári. Þar hefur verið farið í aðgangsstýringar. Þar hefur verið farið í öflun sértekna með bílastæðagjöldum, salernisgjöldum og fleiru. Þar hefur tekist að byggja upp góða göngustíga, vernda svæðið, auka fræðslu og þekkingu til ferðamannanna, til landsmanna, til skólahópa og annarra. Þegar svona ferðamannastaður hefur tækifæri til að bæta aðgengi eykst líka aðgengi hreyfihamlaðra og allra um leið. Það er bara gott dæmi um það að ef tekið er á málum, gerð stefna og þorað að fara í aðgangsstýringar, gjaldtöku og annað slíkt, þá er hægt að gera góða hluti og koma inn á þetta allt saman.“

Thingvellir_pjeturÖryggi og aðgengi ferðamanna á Þingvöllum hefur verið aukið með mannvirkjum sem falla vel að náttúrunni og vernda hana.

Þegar þessi lýsing á öflugu starfi á Þingvöllum er lesin skal haft í huga að í Þingvallanefnd, sem á lokaorðið um framvindu mála í þjóðgarðinum, sitja alþingismenn. Þeir eru beinir þátttakendur í töku ákvarðana sem hafa leitt til þessarar niðurstöðu. Þarna er öðrum gefið gott fordæmi. Raunar er óskiljanlegt hvers vegna því hefur ekki verið fylgt víðar. Ekkert hefur ráðist af tilviljun í þessu efni á Þingvöllum heldur í samræmi við mótaða stefnu. Gefi menn sér ekki tíma til að vinna hana á hverjum stað heldur hugsa aðeins um skjótfenginn gróða lenda þeir og gestir þeirra í ógöngum.