Þingrofsfundur
Ef til vill dregst til jóla að þing komi saman. Verður að búa þannig um hnúta að gangverk samfélagsins sem sækir afl í ríkissjóð stöðvist ekki um áramótin.
Þingfundur hófst klukkan 10.30 í dag (17. október) og lauk klukkan 11.09. Þar las Bjarni Benediktsson forsætisráðherra forsetabréf um þingrof og kosningar 30. nóvember.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra les þingrofsbrréfið 17. október 2024 (mynd: mbl.is/Eyþór).
Þingmenn halda umboði sínu fram á kjördag. Nauðsynlegt er að þeir komist á næstu dögum að niðurstöðu um fjárlög frá 1. janúar 2025. Landskjörstjórn hefur svigrúm til að úrskurða og síðan eru kærufrestir. Ef til vill dregst til jóla að þing komi saman. Verður að búa þannig um hnúta að gangverk samfélagsins sem sækir afl í ríkissjóð stöðvist ekki um áramótin. Íslensk stjórnskipun er þess eðlis að hún stendur þetta óvenjulega álag af sér eins og annað.
Í ræðu sinni hvatti forsætisráðherra til þess að þingheimur sameinaðist um að samþykkja aðhaldssöm fjárlög fyrir árið 2025. Þótt á þingi væri enginn starfandi meiri hluti þá væri verkið þessu þingi alls ekki ofvaxið. „Ljúkum störfum okkar hér með sóma, sinnum þeim starfa sem landsmenn völdu okkur til og höldum svo út í drengilega kosningabaráttu,“ sagði ráðherrann.
Að lokinni ræðu Bjarna tóku fulltrúar þingflokkanna til máls: Svandís Svavarsdóttir frá VG, Kristrún Frostadóttir Samfylkingu, Inga Sæland Flokki fólksins, Ingibjörg Isaksen Framsóknarflokki, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírötum, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokki.
Átta ræðumenn frá jafnmörgum þingflokkum og tveir karlar í hópnum.
Svandís Svavarsdóttir var neikvæð að vanda og önug í garð Bjarna með ásökunum vegna stjórnarslita sem flokkur hennar vildi þó í raun en bara á öðrum tíma! Ágreiningurinn um tímasetninguna verður til þess að VG tekur ekki þátt í starfsstjórninni sem tekur við stjórnarstörfum í dag. Hún sagði afgreiðslu fjárlaga „ekki einfalt mál“. Þingflokkur VG myndi nálgast það verkefni af ábyrgð í viðkomandi þingnefndum.
Samfylkingin hefur kynnt kosningaslagorð með orðunum „stolt þjóð“ sem vekja deilur innan flokksins. Í ræðu sinni á þinginu í dag svaraði Kristrún Frostadóttir gagnrýnendum innan eigin flokks óbeint þegar hún sagði: „Þann 30. nóvember verður kosið um framtíð Íslands. Og þá spyr ég: Hvað er það helst sem fyllir okkur þjóðarstolti? Náttúran, menningin, framúrskarandi Íslendingar sem fá tækifæri og ná glæsilegum árangri? Já, allt þetta fyllir okkur stolti og margt fleira mætti nefna ... stoltið er sært ef við pössum ekki upp á hvert annað.“
Þórhildur Sunna notaði sínar mínútur til að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn, mótmæla vörnum landsins og lögreglunni.
Inga Sæland sagðist hafa stofnað Flokk fólksins árið 2016 „til að axla ábyrgð, til að takast á við verkefnið“. Og hún sagði einnig: „Ég fæddist einfaldlega tilbúin til að takast á við verkefnið. Réttlætið er handan við hornið.“
Kjósendur fá nú valdið í sínar hendur og því fögnuðu allir ræðumenn nema Svandís Svavarsdóttir og dálítill nöldurtónn var í ræðu formanns þingflokks framsóknarmanna, Ingibjargar Ísaksen.
Hvort vinstri grænir verði fúlir á móti til kjördags veit enginn, annarra flokka menn voru bara brattir og baráttuglaðir á þinginu í morgun.