24.5.2022 8:21

Þingmenn vilja lögbrot

Þingmönnum sem tóku ráðherra til bæna vegna þessa á þingi 23. maí eru upphrópanir vegna frétta kærari en löggjafarstarfið sem þeir eru kjörnir til að sinna.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra skýrði vel á alþingi mánudaginn 23. maí 2022 frammi fyrir hverju yfirvöld standa lögum samkvæmt þegar að því kemur að framkvæma brottvísun á fólki sem dvelst hér ólöglega.

Til að bæta hlut þessara einstaklinga er dregin upp eins svört mynd af íslenskri stjórnsýslu eins og verða má og nýkjörinn formaður Rauða kross Íslands, Silja Bára Ómarsdóttir, lagði sitt af mörkum í því skyni í sjónvarpsþætti sunnudaginn 22. maí.

Urðu orð nýja formannsins leiðarstef Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í ádeilu hans á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna útlendingamálanna. Logi sagði að formaður Rauða krossins segði að hér væri verið að taka upp útlendingastefnu sem yrði með þeim harðari í Evrópu.

Forsætisráðherra mótmælti þessum fullyrðingum harðlega enda ættu þau ekki við rök að styðjast.

Jón Gunnarsson benti á að það væri regla hjá okkur og flestum öðrum ríkjum Evrópu að fengi fólk vernd í öðru ríki sækti það ekki um vernd annars staðar. Brottvísanir tíðkuðust í öllum löndum. Málsmeðferð í þágu þessa fólks væri víðtækari hér og meiri en í mörgum nágrannalöndum.

Lögbundinn gangur máls er þessi: Útlendingastofnun afgreiðir umsókn á stjórnsýslustigi. Niðurstöðu hennar má áfrýja til úrskurðarnefndar útlendingamála. Í þessu ferli nýtur hælisleitandi framfærslu og hefur löglærðan talsmann sér við hlið. Sé úrskurður umsækjanda í óhag ber honum að hlíta honum og fara úr landi að öðrum kosti brýtur hann lög með dvöl sinni hér.

887822Þegar lönd kröfðust skírteinis um PCR-próf af þeim sem þangað komu bar svo við að einstaklingar sem dvöldust hér ólöglega vegna ákvörðunar yfirvalda neituðu að fara í PCR-próf og var þess vegna ekki unnt að senda þá úr landi. Þetta er meginuppistaðan í þeim 270 manna hópi sem nú bíður brottvísunarn þegar krafa um PCR-próf vegna ferðalaga er úr sögunni.

„Alþingi setti okkur reglur og eftir þeim erum við að vinna í öllu ferlinu. Það er þá alþingis að breyta þeim ef það vill viðhafa önnur vinnubrögð,“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra réttilega.

Þingmönnum sem tóku ráðherra til bæna vegna þessa á þingi 23. maí eru upphrópanir vegna frétta kærari en löggjafarstarfið sem þeir eru kjörnir til að sinna. Nú á að beita upphlaupum, rógi um stöðu útlendingamála í Grikklandi, fullyrðingum um að PCR-próf séu þvingunarúrræði á borð við pyntingar, lygi um íslensku útlendingalögin og almennum ásökunum um mannvonsku ráðherra til að knýja á um lögbrot.

Að vinnubrögð af þessu tagi séu stunduð af þingmönnum með fulltingi formanns Rauða krossins, biskupsins yfir Íslandi, ríkisútvarpsins og fleiri slíkra þjóðfélagsafla sýnir aðeins enn einu sinni í hvert óefni stefnir í umræðum um málefni af þessum toga. Þetta er vágestur í umræðum á æ fleiri sviðum, þar skal staðreyndum, lögum og reglum, vikið til hliðar af því að einhverjum finnst það bara.