Þingmenn og glæpastarfsemin
Það er mjög holur hljómur í öllu því sem alþingismenn segja í tilefni af þessari nýju skýrslu greiningardeildarinnar ef þeir veita þessu undarlega frumvarpi utanríkisráðherra brautargengi að því er virðist næstum umræðulaust.
Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur birt enn eina skýrsluna sem sýnir að skipulögð glæpastarfsemi hefur náð að festa rætur í landinu. Á síðustu árum hefði skipulögðum brotahópum fjölgað hér um helming og þeir fest sig í sessi í íslensku samfélagi. Sagt er frá dæmum um að brotahópar hagnýti sér ungmenni og leiti uppi umsækjendur um alþjóðlega vernd í búsetuúrræðum til að fremja glæpi.
Í samtali við Morgunblaðið í dag (18. nóvember) segir Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar, það vekja athygli hve mörg afbrigði af brotum séu tiltekin í skýrslunni. Vill hann að skoðuð sé notkun á greiningu upplýsinga og samvinna bæði innan- og utanlands.
Grímur var um tíma fulltrúi Íslands hjá Europol og þekkir af eigin raun gildi greininga og nauðsyn þess að stilla alla strengi saman til að ná árangri við löggæslu.

Að líkindum hefur ekki verið nóg að gert í slíkri samhæfingu hér á landi. Ég hef lengi lagt til að breytt verði skipulagi við landamæravörslu og hún alfarið færð undir miðlæga stjórn embættis ríkislögreglustjóra. Er ekki nokkur vafi á því að slík skipulagsbreyting myndi efla getu lögreglunnar til að fylgjast með skipulagðri glæpastarfsemi sem á rætur erlendis.
Tillögur í þessa veru hafa ekki fengið hljómgrunn án þess að fyrir liggi nein opinber, rökstudd afstaða gegn slíkri breytingu.
Núverandi ríkisstjórn stefnir hins vegar að því að flækja landamæravörsluna enn frekar eins og birtist í frumvarpi utanríkisráðherra um að vegabréfsáritanir inn á Schengen-svæðið færist frá dómsmálaráðuneyti til utanríkisráðuneytis svo að fjölga megi áritunum og afla ríkissjóði meiri tekna.
Það er mjög holur hljómur í öllu því sem alþingismenn segja í tilefni af þessari nýju skýrslu greiningardeildarinnar ef þeir veita þessu undarlega frumvarpi utanríkisráðherra brautargengi að því er virðist næstum umræðulaust.
Grímur Grímsson vitnar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og segir að þar birtist vilji stjórnvalda til að gera betur í baráttunni gegn glæpastarfsemi og dómsmálaráðherra hafi „nú boðað einhverjar breytingar á reglum og lögum og, eftir atvikum, fjárveitingar í því sambandi“. Grímur veit ekkert hvað flokkssystir hans í Viðreisn hefur í huga. Víst er þó að dómsmálaráðherra lætur það yfir sig ganga að utanríkisráðherrann, formaður Viðreisnar, vegi að landamæravörslunni.
Í skýrslu greiningardeildarinnar kemur fram að alla jafna starfi tugir einstaklinga í vændi hér á landi. Þegar þessi setning er lesin má minnast þess að þegar vinstri meirihluti varð til á alþingi vorið 2009 var það eitt af fyrstu verkum hans að samþykkja lagabreytingu sem átti að útiloka vændi á Íslandi og var þar farið í smiðju til sænskra jafnaðarmanna.
Frumvarp utanríkisráðherra um áritanirnar er heimasmíðað og gengur gegn stefnu annarra Schengen-ríkja og er í andstöðu við Schengen-reglur.