2.9.2019 10:09

Þingmenn greiða atkvæði um þriðja orkupakkann

Loks er komið að því í dag, 2. september 2019, að alþingismenn greiði atkvæði um innleiðingu þriðja orkupakkans.

Loks er komið að því í dag, 2. september 2019, að alþingismenn greiði atkvæði um innleiðingu þriðja orkupakkans. Máls sem sigldi eins og hvert annað EES-mál á þinginu frá 2010 til 2018 þegar það breyttist allt í einu í einskonar pólitískt óargadýr af því að minnihlutahópur í Noregi, Nei til EU, varð undir í atkvæðagreiðslu um málið í stórþinginu í Osló 22. mars 2018. Samtökin Nei til EU berjast gegn aðild Noregs að EES-samstarfinu og raddir í þá veru hafa orðið háværari hér undanfarna mánuði.

Fyrir Nei til EU vakir að alþingi innleiði ekki þriðja orkupakkann í dag og þar með komi hann ekki til framkvæmda. Hér er þessi stefna sett í þann búning að fara eigi með málið aftur í sameiginlegu EES-nefndina og síðan láta reyna á ákvæði EES-samningsins sem stofna samstarfinu í heild í uppnám fyrir utan að hindra framkvæmd þriðja orkupakkans.

Althingi4jpgSalur alþingis.

Um þriðja orkupakkann hefur verið rætt lengur á alþingi en EES-samninginn sjálfan á árinu 1992 (135 klst.). Þegar kemur að atkvæðagreiðslunni í dag hefur verið rætt um þriðja orkupakkann í um 150 klst. Fleiri lögfræðiálita hefur verið leitað um hann en nokkurt annað EES-mál í 25 ára sögu EES-samstarfsins.

Í júní var gert tæplega þriggja mánaða hlé á þingumræðum um pakkann til að andstæðingar hans í Miðflokknum gætu aflað frekari upplýsinga í því skyni að sannfæra þingheim um hættuna af því að samþykkja hann.

Sé tekið mið af greinum tveggja forystumanna Miðflokksins í Morgunblaðinu í dag, þingmannanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, flokksformanns, og Karls Gauta Hjaltasonar, hefur þeim ekki tekist að afla neinna nýrra gagna. Þeir vísa báðir til frétta sem birtust í júlí um að framkvæmdastjórn ESB hefði ákveðið að skjóta ágreiningi við ríkisstjórn Belgíu vegna þriðja orkupakkans til ESB-dómstólsins. Málið snertir Ísland ekki á nokkurn hátt enda hefur framkvæmdastjórn ESB ekkert boðvald gagnvart Íslandi hvorki í þessu máli né öðrum.

Þá gefur Sigmundur Davíð til kynna að ESB vilji neyða Kýpverja til að tengjast ESB-raforkunetinu þegar hið gagnstæða er rétt. Kýpverjum er mikið í mun að verða hluti af netinu til að hætta raforkuframleiðslu með kolum, sömu sögu er að segja um þá sem búa á grísku eyjunni Krít. Nýlega var kynnt útboð vegna sæstrengs frá Grikklandi um eyjarnar tvær til Ísraels.

Hver sá sem íhugar harðar deilur vegna þriðja orkupakkans hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu að annað búi að baki þeim en ótti við efni málsins. Tvennt stingur þá í augu: (1) Óvild í garð forystumanna og þingflokks Sjálfstæðisflokksins og vilji til að ýta undir trúnaðarbrest innan flokksins. (2) Ótti við „tilraunir fimmtu herdeildar ESB, sem hér er að verki til þess að læsa Ísland inn í búri í Brussel“ eins einn af höfuðandstæðingum þriðja orkupakkans, Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, orðar það á vefsíðu sinni í dag.

Líklegt er að fljótt fenni yfir þriðja orkupakkann í umræðum um önnur hitamál vegna EES-samstarfsins eða annarra viðfangsefna. Af umræðunum um hann má hins vegar draga margvíslegan lærdóm. Það ber að gera og nýta hann við úrlausn framtíðarverkefna.