17.9.2018 12:07

Þingmenn fræddir um hugleiðslu

Leiðirnar til að nýta sér kosti þess að hvíla hugann og leggja þannig rækt við eigin heilbrigði, andlegt og líkamlegt, eru margar.

Núvitund er íslensk þýðing á enska orðinu mindfulness sem hefur einnig verið íslenskað með orðinu gjörhygli. Enska orðið má rekja tæpa hálfa öld aftur í tímann þegar Jon-Kabat Zinn, fyrrv. læknaprófessor í Bandaríkjunum (f.1944), innleiddi þekkingu sem hann hafði öðlast í hugleiðslu hjá Búddamunkum inn í vestræna læknisfræði og sýndi með klínískum rannsóknum að hugleiðsla stuðlar að heilbrigði og vellíðan.

Undanfarin ár hefur skilningur á gildi hugleiðslu vaxið jafnt og þétt. Hér á landi er unnt að sækja námskeið í núvitund og í byrjun júní kom sjálfur Jon Kabat-Zinn til landsins og efndi til námskeiða í Hörpu.

Í dag (17. september) er sagt frá því í Fréttablaðinu að hér á landi sé staddur þingmaður breska Verkamannaflokksins, Chris Ruane, sem sé annar af tveimur formönnum breskrar þingnefndar um núvitund.

Mindfulness_670Myndin er tekin á World Economic Forum í Sviss þar sem fundarmenn gáfu sér tóm til hugleiðslu.

Á netinu segir Ruane að hann hafi frá árinu 2013 boðið ókeypis þjálfun í núvitund/gjörhygli í breska þinginu. Nokkur hundruð þingmanna í báðum deildum þingsins og starfsmenn þingsins hafa lært hugleiðslu á þennan hátt. Árið 2014 stofnaði hann með Richard Layard lávarði það sem þeir kalla á ensku Mindfulness All Party Parliamentary Group (MAPPG), þverpólitískan hóp sem hefur að markmiði að móta opinbera stefnu um hugleiðslu á sviði heilbrigðismála, menntamála, refismála og á vinnustöðum. Hann segist hafa mikinn áhuga á að þróa alþjóðatengsl á þessu sviði og vinni nú með talsmönnum núvitundar í 40 ólíkum löndum sem vilji kynna hugleiðslu í þingum sínum. Áður en Ruane varð þingmaður fyrir Vale of Clwyd í Wales starfaði hann sem kennari og segist hann njóta þeirrar reynslu við útbreiðslu hugleiðslunnar.

Af Fréttablaðinu má ráða að Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar alþingis, hafi kynnst Ruane og verkefni hans í London í fyrra og þess vegna sé hann hér. Hittir breski þingmaðurinn nefndina, heldur opinn fund fyrir alla þingmenn og hittir borgarfulltrúa.

Allir sem kynnst hafa gildi hugleiðslu fagna þessu framtaki. Leiðirnar til að nýta sér kosti þess að hvíla hugann og leggja þannig rækt við eigin heilbrigði, andlegt og líkamlegt, eru margar. Núvitund er ein þeirra og styrkur hennar gagnvart Vesturlandabúum er ekki síst sá að þar er reist á aðferðum sem staðist hafa læknisfræðilegar kröfur.