19.1.2023 10:16

Þegar Stundin gleypti Kjarnann

Á Heimildinni nálgast menn mál í anda Kveiks á ríkissjónvarpinu áður enn breytt var um ritstjórnarstefnu þar eftir brottför lykilmanna sem fluttu sig einmitt yfir á Stundina.

Nú er sú breyting orðin á miðlun frétta á netinu að vef-fréttasíðurnar Kjarninn og Stundin hafa runnið saman á einni síðu Heimildinni. Nafn nýju síðunnar gefur hvorki mikið hugmyndaflug til kynna né að hátt skuli flogið. Fyrstu dagar sem nýja síðan er í loftinu bendir til þess að Kjarninn hafi orðið að engu, fréttamat og blaðamennska Stundarinnar ráði för, það er sú stefna að nota nafnlausar eða óljósar heimildir til að ýta undir tortryggni í garð einstaklinga eða fyrirtækja.

Ritstjórar Heimildarinnar eru tveir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir frá Stundinni og Þórður Snær Júlíusson frá Kjarnanum. Þau birtu hástemmdan sameiginlegan leiðara föstudaginn 13. janúar og fylgdu nýja miðlinum úr hlaði.

Þau sögðu tvo skóla á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Annar teldi „frjálsa, faglega og fjölbreytta fjölmiðla vera hornstein lýðræðis og forsendu opinnar lýðræðislegrar umræðu“. Hinn teldi að fjölmiðlar ættu „fyrst og síðast að vera framlenging á hagsmunabaráttu“.

Þau sögðust að sjálfsögðu vera í fyrri hópnum og þau væru „í takti við ríkjandi afstöðu á hinum Norðurlöndunum“.

GgindexÞessi skilgreining er til heimabrúks og á að höfða til lesenda nýja miðilsins þótt henni sjáist hvergi stað á fyrstu útgáfuviku hans. Menn þurfa ekki að lesa margar frétta-vefsíður á Norðurlöndunum til að átta sig á að Heimildin stendur þeim langt að baki. Á Heimildinni nálgast menn mál í anda Kveiks á ríkissjónvarpinu áður enn breytt var um ritstjórnarstefnu þar eftir brottför lykilmanna sem fluttu sig einmitt yfir á Stundina.

Það er nýmæli að lesa yfirlýsingu um að Stundin hafi einhvern tíma verið sniðin að norrænum hugmyndum um góða og trúverðuga fjölmiðla sem nálguðust mál af víðsýni. Viðleitni í þá átt setti frekar svip á Kjarnann en nýja Heimildin sýnir að andi Stundarinnar svífur þar yfir vötnum.

Sérstaða íslensks fjölmiðlamarkaðar ræðst aðeins af einu: hve mikið er hlaðið undir ríkisútvarpið (RÚV) með skatt- og auglýsingafé. Þá hafa erlendir miðlar tekið til sín æ meira af auglýsingatekjum sem að öllu jöfnu hefðu runnið til innlendra miðla.

Fjalla ritstjórar Heimildarinnar um þetta í fyrrgreindum leiðara. Þau segja að erlendu miðlarnir, aðallega Google og Facebook hafi tekið til sín 43,2% af 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa á Íslandi á árinu 2021, þessi hlutdeild hafi verið 4% árið 2012. Á sama tíma og tekjur einkarekinni innlendra miðla minnki vaxi hlutur ríkisútvarpsins (RÚV) í öllum fjölmiðlatekjum. Hann var 22% árið 2015 en 25% árið 2021, segja þau og árið 2021 hafi RÚV tekið til sín um helming allra auglýsingatekna í sjónvarpi og 39% þeirra í útvarpi. Í ár fær RÚV 5,7 milljarða frá skattgreiðendum um 1000 milljónum meira en 2021.

Hvað ætlar ritstjórn Heimildarinnar að gera? Boðuð er afhjúpunarstefna og að stigið verði „út af færibandinu“ með færri fréttum „en almennt tíðkast á hefðbundnum fréttamiðlum, en vanda til verka“. Markmiðið er að taka á spillingu, stunda rannsóknarblaðamennsku og setja mikilvæg mál á dagskrá Kjarninn er með öðrum orðum horfin og Stundin ræður.