18.8.2020 12:16

Þegar frásögnin verður fréttin

Við áhorf á „fréttir“ vissu allir nema fávísustu áhorfendur að þeir fengju aðeins að kynnast annarri hlið mála.

Hér var nýlega vitnað í Jeff Jacoby, dálkahöfund hjá The Boston Globe, sem sagði að nú á tímum væri virðingin fyrir hlutlægni í fréttum að hverfa. Blaðamenn teldu minna skipta að allar staðreyndir væru réttar en að „narratívan“ – frásagan – skilaði sér. Af þessu leiddi að fjölmiðlar færu hvorki í felur né afneituðu að þeir hölluðu sér í eina átt frekar en aðra: CNN og The Washington Post væru verulega til vinstri en Fox News til hægri. Við áhorf á „fréttir“ vissu allir nema fávísustu áhorfendur að þeir fengju aðeins að kynnast annarri hlið mála.

Jacoby lýsti ástandinu í Bandaríkjunum en auðvelt er að nýta lýsingu hans sem leiðarljós við mat á fjölmiðlun annars staðar. Hér á landi má taka fjölmörg dæmi, til dæmis áralangar deilur um fiskveiðistjórnunina. Frásagnir (í mynd frétta) af stórfyrirtækinu Samherja verður að skoða í þessu ljósi. Ferðaþjónustan kann nú að dragast inn í sama frásagnarmynstur.

Shutterstock_1629206077Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði á Facebook mánudaginn 17. ágúst:

„Ef eg mætti óska mér hvað fjölmiðlar landsins fengjust við á morgun væri það minni eltingaleikur við hvað þessi eða hinn hefði verið í margra metra fjarlægð frá öðru fólki og í staðinn t.d. viðtal við hótelhaldarann á landsbyggðinni nú er að segja upp 50 manns í litlu samfélagi, nú eða umfjöllun um afþreyingarfyrirtækið sem þarf að segja upp öllum leiðsögumönnunum með margra ára reynslu, eða kannski nokkra dálksentimetra um litla gistiheimilið á Suðurlandi sem hefur fengið afbókanir á 80 gistinóttum á 16 klukkutímum.“

Í dag má lesa eftir honum haft á mbl.is „Ég er ekki að gera lítið úr því [að virða fjarlægðarmörk], við eigum öll að passa okkur á því. En þegar forsætisráðherra lendir í Kastljósi þá finnst mér nú kannski stærri mál sem þarf að ræða akkúrat núna,“ sagði Jóhannes og vísar í fréttir um hegðun ferðamálaráðherra varðandi fjarlægðarmörk á veitingastað um helgina.“

Í frétt mbl.is er sagt frá samtali við Jóhannes Þór á útvarpsstöðinni K100 og þar segir:

„Gagnrýndi Jóhannes einnig umræðu í samfélaginu um ferðaþjónustuna sem einkenndist oft af skilningsleysi. „Þessi umræða sem hefur gengið undanfarnar tvær vikur er afskaplega furðuleg. Það er ekki þannig að ferðaþjónustan sé einhverjir nokkrir gráðugir karlar sem sitja í fyrirtækjum og hirða allt gull sem á vegi þeirra verður og hafi engin tengsl við samfélagið. Ferðaþjónustur eru ekkert annað en 25 þúsund venjulegir Íslendingar sem hafa af henni atvinnu,“ sagði Jóhannes.

„Þetta er það sem það þýðir að loka ferðaþjónustunni. Það þýðir að setja allt þetta fólk á atvinnuleysisbætur, eða stóran hluta þess, og við skulum ekkert reyna að ímynda okkur það að það hafi ekki áhrif í samfélaginu. Þetta er fólk sem þarf að vinna fyrir fjölskyldum og þetta skapar gríðarlegan fjárhagsvanda hjá fjölmörgum heimilunum og það hefur áhrif á allt heimilislífið og fjölskyldulífið.“