Þáttaskil vegna Varins lands
Eftir undirskriftasöfnun Varins lands hefur engin ríkisstjórn haft brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni.
Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur ritar nokkur orð um varnarmál í Morgunblaðið í morgun (19. nóvember). Hann segir meðal annars:
„Þeir sem andvígir eru aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafa alla tíð verið háværir í fjölmiðlum. Um tíma reyndu þeir að telja mönnum trú um að þeir væru að túlka vilja meirihluta þjóðarinnar. Þeim varð talsvert ágengt, ekki síst vegna þess að í þeirra hópi voru margir menntamenn, liprir pennar og góðir ræðumenn. Hin raunverulega afstaða landsmanna til varnarliðsins kom í ljós árið 1974 þegar vinstristjórnin hafði áform um að láta herinn fara. Þær gríðarlegu undirtektir sem undirskriftasöfnun Varins lands fékk slógu vopnin algjörlega úr höndum herstöðvaandstæðinga. Þátttakan, miðað við höfðatölu, var að öllum líkindum einsdæmi hjá lýðræðisþjóð. Alls rituðu 55.522 einstaklingar á kosningaaldri nöfn sín undir áskorun til ríkisstjórnar og Alþingis um að hætta við uppsögn varnarsamningsins og brottför varnarliðsins. Fjöldinn samsvaraði meirihluta þeirra sem að jafnaði tóku þátt í alþingiskosningum. Hlutdrægni Ríkisútvarpsins kom berlega í ljós þegar sjónvarpsmenn fengust ekki til að vera viðstaddir þegar undirskriftirnar voru afhentar í Alþingishúsinu.
Þótt langt sé um liðið hefur afstaða RÚV ekki breyst. Í sjónvarpsþáttum um Varnarliðið sem sýndir voru í janúar á þessu ári var aðeins minnst á Varið land í 20 sekúndur og gefið í skyn að undirskriftasöfnunin hefði verið tilraun til að koma ríkisstjórninni frá! Birt voru viðtöl við þekkta herstöðvaandstæðinga og Keflavíkurgöngum gerð góð skil.
Í haust sýndi RÚV svo þáttaröð sem bar nafnið Fullveldisöldin. Sýnt var frá óeirðunum á Austurvelli 1949 þegar innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið var til umræðu á Alþingi og látið að því liggja að þátttakendur, sem köstuðu grjóti og slösuðu menn, hefðu einungis verið að undirstrika kröfuna um hlutleysi Íslands og sjálfstæði. Aðeins örfáir hefðu verið stuðningsmenn Sovétríkjanna. Í sama þætti var enn á ný sýnt rækilega frá Keflavíkurgöngum. Alls engin umfjöllun var um þann sögulega atburð þegar vinstristjórnin ætlaði að segja upp varnarsamningnum árið 1974. Ekki stakt orð um undirskriftasöfnun Varins lands, sem sýndi raunverulegan hug almennings til veru bandaríska varnarliðsins.“
Þorsteinn Sæmundsson afhendir Eysteini Jónssyni, forseta sameinaðs þings, og Ólafi Jóhannessyni forsætisráðherra undirskriftalista Varins lands,
Aðfinnslur Þorsteins um þetta efni eru réttmætar. Að gera lítið úr áhrifum undirskriftarsöfnunar Varins lands er tilraun til að falsa söguna. Fram til 1974 höfðu tvisvar sinnum verið myndaðar vinstri stjórnir í landinu, 1956 og 1971, báðar höfðu brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni að kröfu Alþýðubandalagsins. Þriðja vinstri stjórnin var mynduð með Alþýðubandalaginu 1. september 1978. Þá sagði í stjórnarsáttmálanum:
„Þar eð ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki samið um stefnuna í utanríkismálum, verður í þeim efnum fylgt áfram óbreyttri grundvallarstefnu og verður þar á eigi gerð breyting nema samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna komi til. Það skal þó tekið fram, að Alþýðubandalagið er andvígt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og dvöl hersins í landinu. Ekki verða heimilaðar nýjar meiriháttar framkvæmdir á yfirráðasvæði varnarliðsins.“
Eftir undirskriftasöfnun Varins lands hefur engin ríkisstjórn haft brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni.