23.12.2018 10:36

Þáttaröð um Trotsky á Netflix

Nú er þessi forvitnilega átta þátta röð, Trotsky, komin á Netflix, hún er sýnd á rússnesku með enskum texta

Þegar þess var minnst í nóvember 2017 að 100 ár voru liðin frá rússnesku byltingunni sem leiddi kommúnista til valda gerðu Vladimir Pútín Rússlandsforseti og félagar lítið til hátíðabrigða. Var á það minnt að Pútín vildi ekki að neitt yrði gert sem hvatt gæti til byltingar gegn honum sjálfum  og valdaklíku hans. Rifjað var upp að Pútín hefði eitt sinn sagt á fundi með námsmönnum og ungum kennurum:

„Einhverjum datt í hug að skekja Rússland innan frá og gerði það svo rösklega að rússneska ríkið hrundi. Þetta voru hrein svik við þjóðarhagsmuni! Enn þann dag í dag er til fólk af þessu sauðahúsi.“

250px-Trotsky_-TV_series-Athygli vakti þó að í aðal-ríkissjónvarpsstöðinni var 6. nóvember 2017 hafin sýning á átta þátta röð um Leon Trotsky, einn þriggja forystumanna bolsévika ásamt Lenín og Stalín. Hann tapaði á heimavelli fyrir Stalín eftir dauða Leníns og var sendur í útlegð 1929 sem dugði þó Stalín ekki. Launmorðingi hans drap Trotsky í Mexíkóborg árið 1940.

Nú er þessi forvitnilega átta þátta röð, Trotsky, komin á Netflix, hún er sýnd á rússnesku með enskum texta. Að sjálfsögðu er ágreiningur um hvernig farið er með einstök atvik í sögunni. Engu er til sparað og í heild er brugðið upp mynd af hrífandi hugsjóna- og ræðumanni með mikla skipulagshæfileika sem svífst einskis og telur málstað sinn og heimsbyltinguna helga hroðaleg ódæðisverk og blóðsúthellingar.

Þegar fjallað var um þáttaröðina í Rússlandi fyrir rúmu ári var bent á að Pútin vildi ekki halda á loft Sovétríkjunum vegna byltingarinnar heldur vegna volduga ríkisins sem kom til sögunnar að henni lokinni, sem innsiglaði sigur í síðari heimsstyrjöldinni og stóðst áraun kalda stríðsins. Í bandaríska ritinu The New Yorker var haft eftir Andrei Zorin, sagnfræðingi við Oxford-háskóla: „Frá sjónarhóli Kremlverja lét bylting bolsévika það gott af sér leiða að Sovétríkin urðu til og þar með leiðin til núverandi kerfis. Það vonda er að hún eyðilagði gamla stjórnkerfið.“ Ekkert verra geti gerst að mati þeirra sem líti á ríkisvaldið sem heilagt. „Þetta skapi rugling og þess vegna sé best að hunsa hana [byltinguna] alfarið.“

Eftir að Stalín náði undirtökunum varð Trotsky að engu í sögu Sovétríkjanna. Nú hefur hann verið kynntur á þennan hátt og að baki honum hafi búið erlendir auðmenn sem vildu eyðileggja Rússland með því að styðja byltingarstarfsemi hans og Leníns.

Trotskíistar á Vesturlöndum taka þáttaröðinni ekki vel og kalla hana úrkynjað sjónarspil reist á sögufölsunum og gyðingahatri.