17.6.2022 11:47

Það er kominn 17. júní

Í dag þegar sjálfstæði Íslands er fagnað í 78. skipti á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, 17. júní, skal þess enn einu sinni minnst að sjálfstæði og fullveldi ríkja er ekki sjálfgefið.

Í dag þegar sjálfstæði Íslands er fagnað í 78. skipti á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, 17. júní, skal þess enn einu sinni minnst að sjálfstæði og fullveldi ríkja er ekki sjálfgefið.

Stríðið sem hófst fyrir tæpum fjórum mánuðum í Úkraínu er áminning um að því aðeins tekst að halda óvinveittum andstæðingi í skefjum að hann óttist afleiðingar þess að láta til skarar skríða með valdi. Vladimír Pútin og klíkan í kringum hann taldi sér trú um að Úkraínumenn skorti kjark, vilja og vopn til að snúast gegn innrás þeirra. Kremlverjar trúðu eigin lygi að í nágrenni þeirra og á landi sem þeir segjast eiga búi nazistar sem með stuðningi NATO ætli að gera Rússland að engu og niðurlægja rússnesku þjóðina.

Eitt er að Kremlverjar lifi í sjálfsblekkingu og láti hana ráða ákvörðunum sínum um að fórna tugum þúsunda mannslífa og gerast stríðsglæpamenn með eyðileggingu og miskunnarlausum fjöldamorðum á almennum borgurum. Annað að á Vesturlöndum skuli einstaklingar, jafnvel áhrifamiklir sem vilja að tekið sé mark á sér, láta eins og það sé þeim sem standa vörð um vestræn gildi að kenna að Pútin réðst inn í Úkraínu. Þessi firra á hljómgrunn á ólíklegustu stöðum.

IMG_5161Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur sótt hvern NATO-fundinn eftir annan undanfarna mánuði til að gæta hagsmuna Íslands og styðja sameiginlegar ákvarðanir til stuðnings Úkraínumönnum. Á mbl.is í gær, 16. júní, birtist við hana viðtal eftir fund NATO-varnarmálaráðherranna í Brussel. Þar sagði hún meðal annars:

„Land eins og Ísland á ekki möguleika ef hernaðarlegur styrkur, stærð eða annað slíkt ræður því hvort landvinningar séu viðurkenndir eða ekki eða alvarleg brot á alþjóðalögum.

Ísland á ekki möguleika í slíku samhengi. Við sem fullvalda og sjálfstætt ríki eigum að haga okkur samkvæmt því og vera bandalagsþjóð í orði og á borði. Mér finnst það skipta máli fyrir okkur sem þjóð, sem eigum allt undir að alþjóðalög, landamæri og lögsaga séu virt.

Þótt ógnin sé fjær okkur en mörgum öðrum þarf hver og einn Íslendingur að muna það að við eigum allt undir því að sú heimsmynd sem við höfum verið að byggja upp síðan í seinni heimsstyrjöld verði ofan á en ekki einhver önnur. Það er blákalt hagsmunamat Íslands, það er raunverulega svo einfalt.“

Þetta er skýr og einfaldur boðskapur. Séu alþjóðalög ekki virt og farið gegn þjóðum með valdi eins og gert er í Úkraínu eiga þjóðir sér ekkert skjól annað en vopnin. Samstarfið innan NATO miðar að því að skapa aðildarþjóðunum, stórum og smáum, skjól í krafti fælingar. Einu sinni hefur 5. gr. NATO-sáttmálans um að árás á einn sé árás á alla verið virkjuð, þegar ráðist var á öflugasta bandalagsríkið, Bandaríkin, 11. september 2001.

Þjóðhátíðardaginn 17. júní 2022 er tímabært að íhuga hvort samhliða aðild að NATO standi íslensk stjórnvöld rétt að öllu til að tryggja sem best ytri varnir þjóðarinnar. Hér hafa ekki verið stigin jafn ákveðin skref í því efni undanfarnar vikur og meðal nágrannaþjóða. Að því ber að vinna.

Gleðilega þjóðhátíð!