20.10.2021 11:32

Teppasali kallaður á teppið

„Ég er í mjög miklu áfalli og á sama tíma mjög ringlaður,“ sagði Alan Talib, eigandi Cromwell Rugs, við mbl.is þegar hann fékk vitneskju um niðurstöðu neytendastofu.

 

Neytendastofa fór fram á að Cromwell Rugs sannaði að auglýst teppi frá Íran hefðu verið boðin á tilgreindu fyrra verði áður en kynnt var verðlækkun. Þarna er vísað til þeirrar reglu að ekki megi bjóða afsláttarverð hér án þess fyrst að bjóða vöruna fyrst til sölu án afsláttar. Vegna auglýsinga frá Cromwell Rugs um stutta viðdvöl fulltrúa fyrirtækisins hér á landi tók neytendastofa hratt á málinu og krafðist í flýti að „félagið sannaði fullyrðingar um ástæður verðlækkunarinnar“ eins og segir í tilkynningu neytendastofu.

Var rannsóknarskyldu neytendastofu samkvæmt stjórnsýslulögum sinnt innan mjög þröngra tímamarka sem Cromwell Rugs voru sett. Taldi stofan sig ekki fá nein svör „til sönnunar á að verðlækkun væri raunveruleg“ og lagði þriggja milljón króna stjórnsýslusekt á félagið.

„Ég er í mjög miklu áfalli og á sama tíma mjög ringlaður,“ sagði Alan Talib, eigandi Cromwell Rugs, við mbl.is þegar hann fékk vitneskju um niðurstöðu neytendastofu:

„Við fengum einhverja hæstu sekt eða jafnvel hæstu sekt í sögu landsins og það kemur mér verulega á óvart Og fyrir hvað? Fyrir að selja teppi? Fyrir að selja handgerð persnesk teppi á afsláttarverði?“ sagði Alan og minnti á að hann seldi hvorki vopn né eiturlyf eða leikföng með eiturefnum eða nokkuð annað sem gæti haft slæm áhrif á neytandann.

G9B170L5O.1_1257193Alan Talib teppasölumaður (Morgunblaðið/Ásdís).

Í Morgunblaðinu í dag (20. október segist Alan Talib ætla að fara með málið „alla leið“:

„Orðspor mitt er á línunni [svo!] og ég mun vernda það fram í rauðan dauðann.“

Alan segir Neytendastofu einungis hafa gefið honum eins dags frest til að svara fyrir auglýsingarnar ellegar yrði honum bannað að auglýsa og hann sektaður. Þannig hefði átt að mála sig „út í horn“. Fulltrúar neytendastofu neiti að funda með sér og hann fái ekki gám fullan af teppum tollafgreiddan. Hann áréttar að haldi menn að hann sé „bara einhver ómerkilegur útlenskur teppasali“ sé það rangt. Hann muni „aldrei leyfa neinum að setja [sig] í þann kassa“.

Alan eru ekki allar bjargir bannaðar. Hann hefur ráðið Ingvar Smára Birgisson lögmann til að reka mál sitt fyrir áfrýjunarnefnd neytendamála. Talið er að málsmeðferðin taki marga mánuði en ekki sólarhringa eins og hröð handtök neytendastofu.

Skilvirkni í íslenskri stjórnsýslu er oft gagnrýnd og hægur málshraði. Þetta á til dæmis almennt við um útlendingamál. Mönnum gefst færi á að teygja lopann og dveljast í landinu á kostnað skattgreiðenda. Teppasali sem kom hingað og kynnti vöru sína á afsláttarkjörum er fundinn sekur um neytendasvik.

Hraðri málsmeðferð gagnvart hælisleitendum er mótmælt sem mannréttindabrotum, oft með mótmælaaðgerðum. Teppasala sem fagnað er af fjölda viðskiptavina er tafarlaust refsað fyrir að auglýsa vöru sína.