Teknókratísk þingmálaskrá
Í hverju felst nýja verklagið? Að með framlagningu þingmálaskrárinnar og blessun forsætisráðherra hafi málin tekið á sig endanlega mynd?
Fyrsti sameiginlegi blaðamannafundur formanna stjórnarflokkanna, Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra, síðdegis mánudaginn 3. febrúar var tilþrifalítill og óspennandi.
Forsætisráðherra skilgreindi tilefni fundarins þröngt. Þær komu fram til að kynna þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þar sem nefnd eru 114 mál af ýmsu tagi án þess að nokkurt þeirra sé fréttnæmt í sjálfu. Þetta var ekki fundur stjórnmálamanna sem fluttu mál sitt af hugsjónahita heldur teknókrata sem héldu sig innan þröngs ramma.
Samkvæmt þingsköpum alþingis (62. gr.) skal forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum sem trúnaðarmál tveimur sólarhringum áður en hún er flutt. Eftirritinu skal (47. gr.) fylgja yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Þing kemur saman í dag (4. febrúar) og stefnuræðan verður flutt á morgun.
Yfirlitið sem þarna er nefnt kallast nú þingmálaskrá. Núverandi forsætisráðherra hefur flaggað henni miklu meira en forverar hennar. Vegna vinnu við hana hafði hún ekki tíma til að sækja mikilvægan fund í Kaupmannahöfn fyrir rúmri viku.
Þingmálaskráin kynnt 03.02.2025: Frá vinstri: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland (mynd: stjórnarráðið).
Í fréttatilkynningu sem fylgdi skránni er haft eftir forsætisráðherra að full eining sé „í þessari ríkisstjórn um öll þau mál sem birtast í þingmálaskrá fyrir vorþingið, sem er mikil breyting frá því sem hefur tíðkast á síðustu árum“.
Ráðherrann segist hafa „lagt upp nýtt verklag“ meðal annars með því að hún hafi „fundað einslega með hverjum einasta ráðherra til að setja fram sterka þingmálaskrá“ og trúverðuga. Í því felist „skýr skilaboð frá samstíga ríkisstjórn“.
Allt er þetta dálítið skrýtilegt þegar til þess er litið að mörg málanna á skránni eru frá fyrri ríkisstjórn eða óunnin. Ekkert nýtt frumvarp verður væntanlega lagt fram án kynningar í samráðsgátt og án samþykkis þingflokka stjórnarinnar. Þá eiga þingnefndir eftir að fjalla um málin áður en til lokaafgreiðslu þingsins kemur. Í hverju felst nýja verklagið? Að með framlagningu þingmálaskrárinnar og blessun forsætisráðherra hafi málin tekið á sig endanlega mynd? Er „full eining“ um það í ríkisstjórninni? Eða þingflokkum stjórnarinnar? Ætla stjórnarþingmenn að sætta sig við teknókratismann?
Vegna kennaraverkfallsins sem nú er eins og skuggi yfir samfélaginu hefur verið hannað nýtt hugtak, virðismatsvegferð, sem forsætisráðherra er mjög tamt en fáir skilja. Taldi ráðherrann að hún hefði ýtt kennurum í slíka vegferð með afskiptum sínum en eftir að kennarar höfnuðu tillögu ríkissáttasemjara um vegferðina má ráða að af hálfu ráðherra hafi verið talað tungum tveim um það hvert leiðin lá. Stjórnmálamenn hafi spillt fyrir því að lausn fyndist.
Því miður bendir margt til þess að þingmálaskráin og tal forsætisráðherra um hana sé aðeins hjal um umbúðirnar. Það viti enginn hvað sé í pakkanum.