„Taugaáfall“ fjármálamarkaðarins
Þá segir blaðið að íslenskur fjármálamarkaður hafi fengið „taugaáfall“ mánudaginn 3. nóvember þegar bandaríska lyfjaeftirlitið, FDA, afgreiddi ekki að sinni umsókn Alvotech.
Í fréttatíma ríkissjónvarpsins var áfallasaga atvinnu- og efnahagsmálanna undanfarnar vikur rakin af þingfréttamanni ríkisins þriðjudaginn 4. nóvember. Hann gat um það sem miður hefði farið en talaði síðan í sama dúr og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. Boðskapur hans er: Jú, við vitum af þessu og gerum eitthvað. Hingað til hafa menn bara látið duga: Þetta reddast!
Vonandi reddast þetta en boðskapurinn er ekki í anda plansins og sleggjunnar. Borgarstjóri Samfylkingarinnar kynnti þriðjudaginn 4. nóvember fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 með margra milljarða afgangi sem allur er reistur á vonarpeningi, meðal annars rúmlega 6 milljarða arði frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Borgarstjórinn sagðist ekkert annað hafa heyrt frá OR en að þar gengi allt að óskum. Jú, vissulega vissi hún af tekjutapi OR vegna lokunar 2/3 hluta Norðuráls en: Þetta hlýtur að reddast!
Alvotech í Vatnsmýrinni (mynd:mbl.is).
Í „leiðara“ ViðskiptaMoggans í dag, 5. nóvember, er farið yfir stöðuna í efnahagsmálum. Þar segir að október hafi verið íslensku atvinnulífi „sérstaklega erfiður og óvissa um efnahagshorfur“ hafi aukist. Bilunin hjá Norðuráli geti minnkað landsframleiðslu allt að 1%. Þá hafi vaxtadómur hæstaréttar „skapað óvissu um framtíð íbúðalánamarkaðarins“ og „enn aukið á vandamál heimilanna, ólíkt því sem vonast var eftir“. Hér hefði betur verið heima setið en af stað farið.
Verðbólga hafi aukist umfram væntingar í október og mældist 4,3% og verðþrýstings gæti í matvöru og þjónustu. Verðbólga minnki ekki „vegna breytinga á opinberri gjaldtöku á ökutækjum sem [verði] jólagjöf stjórnvalda“.
Þá segir blaðið að íslenskur fjármálamarkaður hafi fengið „taugaáfall“ mánudaginn 3. nóvember þegar bandaríska lyfjaeftirlitið, FDA, afgreiddi ekki að sinni umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir líftæknilyfið AVT05. Þetta ferli hafi staðið yfir síðan í júlí þó að það birtist fyrst nú, þetta séu ekki fyrstu aðfinnslur FDA gagnvart framleiðslunni í Vatnsmýrinni.
Alvotech er réttilega lýst sem einni helstu vonarstjörnu íslensks nýsköpunarumhverfis. Tekjur félagsins hafi aukist mikið og hratt en skuldir nemi þó yfir einum milljarði dala og lausafé sé takmarkað. Alvotech hafi lækkað spá sína fyrir árið 2025 og geri ráð fyrir 40-50% samdrætti EBITDA frá fyrri áætlunum sem endurspegli viðkvæmni rekstrarins gagnvart þessum töfum.
Þá segir í ViðskiptaMogganum:
„Í litlu hagkerfi eins og því íslenska hafa slík tíðindi víðtæk áhrif. Alvotech er risi á litlum markaði og þegar það verður fyrir áföllum finnur allur markaðurinn fyrir því. Fjölmargir fjárfestar, fagfjárfestar, lífeyrissjóðir og almenningur hafa fjárhagsleg tengsl við félagið beint eða óbeint. Markaðurinn fékk í gær skýra áminningu um mikilvægi þess að dreifa áhættu og hve erfitt það er að hafa eitt ráðandi fyrirtæki á svo litlum markaði.“
Nú eru stórfyrirtækin Norðurál og Alvotech í biðstöðu. Fyrirtækin eiga allt undir ákvörðunum sem teknar eru í Bandaríkjunum. Ætli Viðreisn og ríkisstjórnin telji þetta ekki reddast með því að fara í ESB og taka upp evru eftir áratug?