26.7.2020 11:09

Tækifæri Ragnars Þórs

Lögmenn Ragnars Þórs ættu að ráðleggja honum að halda fast í öll stóryrði sín, dylgjur og ásakanir svo að honum verði stefnt fyrir dómara þar sem hann fái færi á að sanna orð sín.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur farið mikinn undanfarið í fjölmiðlum og á Facebook (FB). Hann gekk svo langt með hótunum í nafni VR í flugfreyjudeilunni að hann vildi að Lífeyrissjóði verslunarmanna (LIVE) yrði beitt til að spilla fyrir hlutafjáraukningu í Icelandair. Þá gripu félagsmenn og stjórn VR fram fyrir hendur á Ragnari Þór.

Á vefsíðu Fréttablaðsins laugardaginn 25. júlí segist Ragnar Þór sitja yfir því með lögmönnum sínum hvernig hann eigi að bregðast við kröfu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), og Davíðs Þorlákssonar, forstöðumanns hjá SA, um að hann dragi til baka yfirlýsingar um að þeir hafi beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjármögnuðu kaup Icelandair á 50% hlut í Lindarvatni, eiganda Landssímareitsins.

IdmagesKjarni ásakana Ragnars Þórs á hendur þeim Halldóri Benjamín og Davíð á FB-síðu hans fyrir fáeinum dögum er að þeir vilji „afvegaleiða umræðuna frá þeim spillingarmálum“ sem Ragnar Þór segist hafa afhjúpað. Hann segir að svo virðist „sem alvarleg umboðssvik hafi verið framin í viðskiptum með almenningshlutafélagið Icelandair við Lindarvatn ehf.“. Þá segir hann:

„Atvinnulífið hefur farið ránshendi um lífeyrissjóði landsmanna árum og áratugum saman í skjóli eftirlitsleysis, meðvirkni verkalýðshreyfingarinnar og ítaka SA í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Nú þegar gerðar eru tilraunir til að fletta ofan af viðbjóðslegri spillingu sem ríkir í okkar samfélagi stíga þessir snillingar fram og segja að trúverðugleiki Fjármálaeftirlitsins sé undir í málinu.“

Hann hafi boðið sig fram til formennsku í VR með „ákveðnar hugmyndir um spillinguna í íslensku samfélagi sem ég vissi að væri mikil“. Eitt af stóru vandamálunum sé „meðvirknin og aðgerðarleysi eftirlitsaðila og stjórna lífeyrissjóða í að taka á slíkum málum sem iðulega eru þögguð í kaf því þau eru svo óþægileg eða stjórnarmenn SA innan lífeyrissjóðanna beita neitunarvaldi eða framtaksleysi í að þau verði skoðuð frekar eða kærð,“ segir formaður VR og það sem hann hafi orðið vitni að í formannsstarfi sínu sé „svo yfirgengilegt að erfitt er að lýsa með orðum,“ segir Ragnar Þór.

Í yfirlýsingu sem Halldór Benjamín og Davíð Þorláksson birta á vefsíðu SA laugardaginn 25. júlí hrekja þeir ávirðingar Ragnars Þórs í sinn garð í fimm liðum og segja síðan:

„Að öllu þessu sögðu viljum við nú góðfúslega beina því til Ragnars Þórs að hann dragi fyrrnefndar fullyrðingar sínar til baka og biðji um leið alla hlutaðeigandi afsökunar á þeim ella er óhjákvæmilegt að þau sem hafa orðið fyrir órökstuddum dylgjum hans íhugi réttarstöðu sína.

Það getur einfaldlega ekki annað verið að hann geri það því það er skýrt brot á landslögum að ásaka saklaust fólk um svo alvarlega háttsemi sem hann hefur nú gert.“

Lögmenn Ragnars Þórs ættu að ráðleggja honum að halda fast í öll stóryrði sín, dylgjur og ásakanir svo að honum verði stefnt fyrir dómara þar sem hann fái færi á að sanna orð sín.