29.6.2023 9:01

Tækifæragreining hefst

Dagana 28. júní til 4. júlí verðum við á ferð um Dalabyggð, Reykhólasveit, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Árneshrepp og Húnaþing vestra til að hlusta og fræðast.

Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV), Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) standa sameiginlega að verkefni til að efla byggð á landsvæðum sem eiga mest undir sauðfjárrækt.

Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar og verðmætasköpunar.

Tækifæragreining er fyrsta skrefið við framkvæmd verkefnisins. Hlédís Sveinsdóttir var ráðin verkefnastjóri við þetta fyrsta stig verkefnisins. Að því loknu og með vísan til hugmynda sem af því leiða hefst næsta skref, námskeið og fræðsla, og síðan er lokaskrefið að kalla til sérfróða til að þeir aðstoði við að koma verkefnum af stað, er slík úrvinnsla kennd við hraðal.

Hlédís fékk mig til liðs við sig en við unnum saman að gerð tillagna að baki fyrstu landbúnaðarstefnunni sem alþingi samþykkti nú 1. júní 2023. Dagana 28. júní til 4. júlí verðum við á ferð um Dalabyggð, Reykhólasveit, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Árneshrepp og Húnaþing vestra til að hlusta og fræðast.

Fyrsti dagur ferðarinnar var sem sagt í gær og hófst hann að Erpsstöðum í Miðdölum í Dalabyggð þar sem Þorgrímur Einar Guðbjartsson mjólkurfræðingur og Helga Elínborg Guðmundsdóttir opnuðu Rjómabúið Erpsstöðum vorið 2009 en fram að því voru þau með hefðbundinn kúabúskap. Þau byggðu nýtt fjós á bænum, komu sér upp heimavinnslu og fóru að framleiða rjómaís. Rjómabúið er nú landsþekkt og hefur hlotið fjölda viðurkenninga. Þar er rekin verslun með heimaunnar vörur en einnig afurðir frá nágrannabændum.

Má segja að vel hafi farið á því að hefja för okkar til „tækifæragreiningar“ á þessum mikla og myndarlega frumkvöðlastað.

Við litum síðan inn í félagsheimilið Árbliki skammt frá Erpsstöðum þar sem er tjaldsvæði og seldar veitingar, hádegisverður og kvöldverður.

Síðdegis sátum við fund með sveitarstjórn og atvinnumálanefnd Dalabyggðar auk þess að bjóða heimamönnum til samtals við okkur í húsakynnum nýsköpunarverkefnisins DalaAuðs.

IMG_7438Kona að strokka, höggmynd Ásmundar Sveinssonar, í hlaðinu á Erpssstöðum í Dalabyggð.

Í tilefni af 20. maí 2023 voru 130 ár liðin frá fæðingardegi Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, en hann fæddist að Kolstöðum í Dölum árið 1893, fékk Rjómabúið að Erpsstöðum til láns eitt verka Ásmundar, Kona að strokka, frá Listasafni Reykjavíkur. Var gerður áratugalangur lánssamningur og með styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands ráðist í viðgerð á styttunni.Vorið 2023 var styttunni komið fyrir á hlaðinu á Erpsstöðum þar sem hún er búinu og fæðingarsveit listamannsins til sóma.

Við Hlédís verðum á ferðinni frá morgni til kvölds fram á þriðjudag 4. júlí og ræðst af önnum okkar hve mikið efni birtist hér á síðunni. Taki það mið af því sem fyrir augu okkar ber verður það fjarri niðurlægingu Pútíns eða uppnáminu vegna sölunnar á Íslandsbanka.

Vonandi verður hlýrra og bjartara en gær þótt rigningin og blásturinn hér í Búðardal minni ekki mikið á að nú sé hásumar.