Sýning um Karmelnunnur - 71. gr. þingskapa
Þeir sem leggja leið sína í byggðasafnið að Vesturgötu 6 í Hafnarfirði kynnast sögu Karmelklaustursins og sjá einnig endurgerð af hluta þess til dæmis klefa hverrar nunnu.
Laugardaginn 1. júní opnaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sýninguna Í skjóli klausturs í Byggðasafni Hafnarfjarðar. Til sýningarinnar er stofnað vegna þess að nú eru 80 ár frá því að Karmelnunnur, fyrst frá Hollandi og síðar frá Póllandi, settust að á Klausturhæðinni í Hafnarfirði ef þannig má orða það.
Engin nunna úr klaustrinu var í byggðasafninu þegar sýningin var opnuð en þar lá frammi blað með ávarpi frá þeim þar sem sagði meðal annars:
„Við erum mjög þakklátar fyrirrennurum okkar, hollensku Karmelnunnunum, sem með kærleika, erfiði, fórn og bæn byggðu upp klaustrið og andlegt líf kærleika í því. Saga þeirra ber glöggt vitni um ást og fórn þeirra.
Jesús blés líka ást og þreki í hjörtu pólskra Karmelnunna, til að koma árið 1984 til ókunns lands og lifa hér til æviloka.
Við þökkum líka Jesú að hann kallar áfram ungar stúlkur til að yfirgefa allt og gerast, af kærleika til hans, nunnur í Karmelklaustri í Hafnarfirði.“
Karmelklaustrið við Ölduslóð í Hafnarfirði.
Þeir sem leggja leið sína í byggðasafnið að Vesturgötu 6 í Hafnarfirði kynnast sögu Karmelklaustursins og sjá einnig endurgerð af hluta þess til dæmis klefa hverrar nunnu.
*
Nú um helgina ætla formenn stjórnmálaflokkanna að ræða framhald þingstarfa. Þau tóku á sig undarlegan blæ þegar þingmenn Miðflokksins tóku þingsalinn til afnota til samtals sín á milli um þriðja orkupakkann. Innan þings og utan beinist athygli að 71. grein þingskapalaganna þar sem segir:
„Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.
Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.
Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður.
Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.
Ákvæði þessarar greinar ná einnig til ræðutíma ráðherra.“
Miðflokksmenn hafa hvað eftir annað endurtekið að dagskrárvald á þinginu sé
í höndum forseta þess og að nokkru manað forseta til að beita því. Eins og 71. gr. sýnir hefur forseti ýmis úrræði til að bjarga þinginu úr holu miðflokksmanna. Til þess þarf hann stuðning meirihluta þingmanna.