Sýndarverkefnið Betri Reykjavík
Síðan grisja starfsmenn borgarinnar hugmyndirnar að eigin vild en nokkrar komast í aðra umferð.
Katrín Atladóttir, frambjóðandi í 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar, birti 1. maí grein í hverfisblaði Laugardals, Bústaða og Háaleitis um net-verkefnið Betri Reykjavík. Undir merkjum þess gefst borgarbúum tækifæri til að kynna hugmyndir um framkvæmdir í hverfum sínum og greiða síðan atkvæði um þær á netinu.
Katrín bendir á að í hverfinu hennar hafi nítján hugmyndir komið til framkvæmda á árinu 2018. Þar hafi borið hæst stíga (4), leiktæki (3), gróður (3), ruslatunnur og gáma (2) og lýsingu (2). Þá segir hún: „Meirihluti framkvæmda snýst sem sagt um venjubundna hluti sem borgin sér um, eða ætti að sjá um, nú þegar. Einnig er áhugavert að tæp 60% hugmyndanna sem koma til framkvæmda, eða ellefu af nítján, snúast um viðhald, að snyrta, bæta, fegra og endurbæta. Dæmi eru endurbætur á framhlið Laugardagslaugar, ný girðing við Bústaðaveg og ruslatunnur í Vogahverfi.“
Katrín bendir réttilega á að það hljóti að kosta sitt að standa að þessari könnun. Það þurfi að halda utan um hana, búa til vefsvæði og kerfi vegna atkvæðagreiðslunnar, standa að kynningu og fleiru.
Ferlið er tvískipt: fyrst eru hugmyndir kynntar og greidd atkvæði um þær. Síðan grisja starfsmenn borgarinnar hugmyndirnar að eigin vild en nokkrar komast í aðra umferð og þá eru greidd atkvæði að nýju til að ákveða hverjar þeirra skuli framkvæmdar.
Katrín Atladóttir.
Katrín bendir réttilega á að vegna grisjunar starfsmanna borgarinnar snúist síðari atkvæðagreiðslan um einhver smáverkefni og viðhald. Góðar og spennandi hugmyndir í efstu sætum fyrri umferðar komist aldrei í úrslitahópinn af því að þær séu ekki borgarstarfsmönnum að skapi – þeir kippa þeim einfaldlega út úr ferlinu.
Grein sinni lýkur Katrín Atladóttir á þessum orðum:
„Er raunverulegt íbúalýðræði að íbúar fái að kjósa um viðhaldsverkefni og smáverk sem henta starfsmönnum borgarinnar? Fyrst tilgangurinn er þessi, væri mögulega hægt að leysa verkefnið Betri Reykjavík af hólmi með einföldu verkbeiðnakerfi? Lækka þannig kostnað, þar sem framkvæmdirnar snúast að miklu leyti um viðhaldsverkefni sem borgin ætti að sinna hvort sem er?“
Þessar spurningar frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins eru réttmætar og svörin við þeim liggja í augum uppi. Verkefnið Betri Reykjavík er aðeins enn eitt sýndarverkefnið sem stofnað er til undir forystu Dags B. Eggertssonar. Tímabært er að Reykvíkingar hafni blekkingarsmiðunum.