9.9.2018 11:33

SVT í eldlínunni sólarhring fyrir kjördag

Blaðið segir að vegna þessa og ritstjórnar á leiðtogaumræðunum komi Eva Landahl ekki að því að stjórna hvernig SVT segi frá kjördeginum.

Sænska blaðið Expressen sagði frá því laugardaginn 8. september að Eva Landahl, kosningastjóri sjónvarpsins, gegndi ekki starfi sínu á kjördag, í dag, sunnudaginn 9. september. Kveikjan er sú að hún ákvað að SVT skyldi frábiðja sér skoðun sem Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, lét í ljós í leiðtogaviðræðum í sjóvarpinu að kvöldi föstudags 7. september.

49769ee7b894e6e7cf271f784e0e17dc82ab487edbfef703e9e8d0ad78c5a889Jimmie Åkesson á kosningafundi.

Í Expressen segir einnig að á vegum blaðsins hafi menn kynnt sér Twitter-færslur Landahl og þar megi sjá að hún hafi tvisvar ýtt á hnappinn „líkar“ vegna færslna sem gagnrýndu Svíþjóðardemókratana (SD). Í annað skiptið stendur í tístinu: „SD er algjörlega ónauðsynlegur flokkur.“

Blaðið segir að vegna þessa og ritstjórnar á leiðtogaumræðunum komi Eva Landahl ekki að því að stjórna hvernig SVT segi frá kjördeginum.

Jimmie Åkesson sagði í umræðunum að innflytjendur væru ekki Svíar og þeir „féllu ekki inn í Svíþjóð“, af þeim sökum ættu þeir erfitt með að finna vinnu, þeir yrðu að leggja sig fram um að verða sænskir.

Þetta frábað SVT sér eftir umræðurnar og sagði Martina Nord, stjórnandi þeirra, að orð Åkessons væru of grovt generaliserende. Eva Landahl áréttaði síðan að SVT bæri þá ábyrgð að frábiðja sér generaliserende ummæli stjórnmálamanna.

SVT neitar að biðjast afsökunar og vísar í það sem á sænsku heitir demokratiparagrafen í útvarpslögunum. Almennt eigi dagskrárgerð að mótast af lýðræðislegum grunnhugsjónum og meginreglunni um virðingu fyrir frelsi og gildi hvers einstaklings.

Ríkissjónvarpsmenn í Danmörku og Noregi gagnrýna afstöðu sænsku starfsbræðra sinna og segja ekkert slíkt geta gerst á sinni vakt.

Málið vakti mikla athygli lokasólarhringinn fyrir kjördag og lýstu SD-menn yfir því að þeir myndu sniðganga SVT og ekki ræða við fréttamenn stöðvarinnar.

Stjórnmálaskýrendur segja atvikið lýsandi fyrir stöðuna í Svíþjóð, ríkjandi sé viðleitni til þöggunar hjá áhrifaöflum í útlendingamálum. Almenningur geri sér grein fyrir að ástandið sé ekki eins og ráðandi öfl vilji vera láta og þess vegna flykkist kjósendur til SD. Þeim virðist sama þótt spáð sé stjórnleysi í landinu fái SD mikið fylgi.

Þess er ekki aðeins beðið með eftirvæntingu í Svíþjóð hvað kemur upp úr kjörkössunum í kvöld heldur um alla Evrópu þar sem flokkar búa sig undir kosningar til ESB-þingsins í maí 2019.