29.5.2019 11:41

Sviptingar í dönskum stjórnmálum

Þótt Venstre hafi notið stuðnings fleiri kjósenda sunnudaginn 26. maí en spáð var eru flestir þeirrar skoðunar að danskir jafnaðarmenn vinni sigur í þingkosningunum 5. júní.

Danir ganga til þingkosninga 5. júní. Fram til þessa hefur Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, leiðtogi mið-hægri flokksins Venstre, frekar átt undir högg að sækja. Hann hafði þó ástæðu til að gleðjast að kvöldi sunnudags 26. maí því að Venstre rétti mjög hlut sinn miðað við ESB-kosningarnar 2014. Nú fékk flokkurinn meira fylgi en honum hafði verið spáð. Fyrir fimm árum var boðað til neyðarfundar í flokksstjórn Venstre til að ræða hvort Lars Løkke ætti að sitja áfram sem formaður. Nú sagði hann að nýta ætti meðbyrinn til sigurs 5. júní.

Venstre fékk nú 23,5%, mest fylgi flokka í Danmörku, þetta var aðeins meira en hann fékk mest áður, 23,4% árið 1999.

Lars-Lokke-i-FrederiksborgCentret-08Lars Løkke Rasmussen á kosningafundi.

Danski þjóðarflokkurinn (DF) sigraði í ESB-kosningunum árið 2014 með 26,6% atkvæða en fékk nú aðeins 10,7%, hann var með fjóra ESB-þingmenn en á nú aðeins einn. Flokkurinn tapaði meira fylgi en nokkru sinni áður í kosningum.

Hér á landi þekkja ýmsir Jens-Peter Bonde sem tók þátt í að stofna þverpólitíska hreyfingu gegn ESB, Folkebevægelsen mod EU, fyrir 47 árum þegar Danir gengu í ESB. Flokkurinn hefur átt fulltrúa á ESB-þinginu þangað til núna. Bonde telur um „söguleg þáttaskil“ að ræða. Flokkurinn var sá eini í Danmörku sem barðist fyrir því að Danir fylgdu Bretum út úr ESB. Á sínum tíma fékk danska nei-hreyfingin fjóra ESB-þingmenn kjörna.

Skýring frambjóðanda hreyfingarinnar er að brexit-vandræðin hefðu fælt fólk frá flokknum.

Þótt Venstre hafi notið stuðnings fleiri kjósenda sunnudaginn 26. maí en spáð var eru flestir þeirrar skoðunar að spár um að danskir jafnaðarmenn vinni sigur í þingkosningunum 5. júní rætist. Rauða blokkin taki við af þeirri bláu í ríkisstjórn Danmerkur og Lars Løkke Rasmussen þurfi að verjast sem flokksformaður kjósi hann að sitja áfram.

Venstre-menn telja þetta hræðsluáróður varðandi flokk sinn. Fylgi hans mælist ekki rétt í könnunum. Á hinn bóginn megi telja víst að samstarfsflokkar Venstre í bláa liðinu fái ekki nógu mikið fylgi til að unnt verði að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Lars Løkke hefur búið sig undir breytingar í þessa veru með því að viðra þá hugmynd fyrir kosningar að Venstre og jafnaðarmenn myndi stjórn að þeim loknum.