Svik á svik ofan vegna ESB
Þau umturnuðust í Silfrinu Dagur B. og María Rut þegar Jens Garðar sagði að spyrja ætti kjósendur í atkvæðagreiðslunni: Viltu að Ísland gangi í ESB?
Athygli beinist að loforðasvikum Dags B. Eggertssonar, þáv. borgarstjóra, fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2022 um leikskóla fyrir alla og að framkvæmdir hæfust við þjóðarhöll og Miklubrautina í stokk fyrir maí 2026 þegar samherjum hans er hafnað í prófkjöri Samfylkingarinnar. Nú lofar hann að leiða þjóðina inn í ESB.
Með því gerir hann Kristrúnu Frostadóttur, flokkssystur sína og leiðtoga marklausa. Hún tók sérstaklega fram fyrir þingkosningarnar 30. nóvember 2024 að hún væri ekki að plata þegar hún segði að ESB-aðild yrði ekki á dagskrá fengi Samfylkingin einhverju ráðið að kosningum loknum.

Þeir sem horfðu á Silfrið í ríkissjónvarpinu að kvöldi mánudagsins 26. janúar sáu að fulltrúar ríkisstjórnarinnar frá Samfylkingu og Viðreisn, Dagur B. Eggertsson og María Rut Kristinsdóttir, gátu eða vildu ekki halda uppi neinum vörnum fyrir efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar.
Þau geta ekki lengur skellt skuldinni á þá sem síðast sátu í stjórn þótt María Rut velti neikvæð vöngum yfir efnahagsþróuninni undanfarna áratugi. Hún áttar sig ekki á því að á þessum árum hefur íslenskt samfélag breyst úr einu fátækasta ríki Evrópu í eitt auðugasta. Þegar Dagur B. minntist á „planið“, efnahagsstefnu Kristrúnar, var óljóst hvort hann gerði það til að hæðast að formanni sínum eða lofa framsýnina. Honum þótti að vísu árangurinn ekki skila sér nógu hratt.
Þegar talinu var beint að ESB-aðildinni lyftist brúnin á báðum stjórnarliðunum. Nú höfðu þau sannfæringu fyrir málstaðnum. Þau héldu sér við að málið snerist um viðræður við ESB en ekki aðild. María Rut boðaði kíkja-í-pakkann-kenninguna. Hún væri full væntinga vegna þess sem ESB kynni að bjóða!
Þegar Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sögðu að ekki þyrfti neinar viðræður til að kynnast aðlögunarskilyrðum ESB gaf María Rut til kynna að þeir væru of gamlir til að skilja þetta.
Dagur B. taldi að nú stæði til að efna það sem stóð í stefnuskrá ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 2013-2017. Þar stóð: „Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Ríkisstjórnin vildi ekki aðild að ESB, enginn meirihluti var fyrir henni á alþingi. Þess vegna lagði ríkisstjórnin ekki til að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það væri pólitískur ómöguleiki.
Viðreisn var stofnuð vorið 2016 til að koma Íslandi í ESB. Vegna óvinsælda þess málstaðar setti Viðreisn á oddinn að ESB-aðild í íslenskum stjórnmálum snerist ekki um efnislega þætti og samningsmarkmið heldur um atkvæðagreiðslu.
Þau umturnuðust í Silfrinu Dagur B. og María Rut þegar Jens Garðar sagði að spyrja ætti kjósendur í atkvæðagreiðslunni: Viltu að Ísland gangi í ESB?
Ríkisstjórnin er ósamstiga í afstöðu til ESB-aðildar. Ólíklega er meirihluti á alþingi fyrir aðild. Nú á að fara í kringum þá staðreynd eins og aðrar þegar aðildarsinnar ræða hjartans mál sitt.
Tvennt ræður hjá ríkisstjórninni: (1) Að beina athygli og umræðum frá misheppnaðri efnahagsstefnu hennar. (2) Að plata kjósendur inn í ESB-ferlið og fela Brusselmönnum síðan að stjórna því.