28.1.2022 9:10

Sviðslist RÚV á Bessastöðum

Hefur orðið umræða um það í fréttum Morgunblaðsins hvort farið var að sóttvarnareglum að kvöldi þriðjudags 25. janúar þegar íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent.

Í dag er þess vænst að ríkisstjórnin tilkynni hvernig hún sjái, að óbreyttum aðstæðum, að aflétt verði sóttvarnaaðgerðum í landinu vegna COVID-19-faraldursins. Óvissustig almannavarna var sett vegna hans 27. janúar 2020. Þjóðin hefur því í tvö ár búið við mismunandi hátt almannavarnastig vegna faraldursins og tvisvar hefur Landspítalinn verið settur á neyðarstig vegna hans. Spítalinn er á því stigi núna til að tryggja að hann geti kallað til aðstoðar við sig sérhæft fólk frá öðrum og sent sjúklinga til annarra sjúkrahúsa. Þá hafa smit aldrei verið fleiri en einmitt nú þegar ákveðið er að sigla út úr faraldrinum enda eru margir bólusettir og pestin tók á sig nýjan svip með ómikron-afbrigðinu svonefnda sem Kári Stefánsson segir að sé ekki COVID.

Margs verður örugglega minnst þegar saga faraldursins verður skráð. Við sjáum núna að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, berst fyrir lífi sínu vegna frásagna um brot á sóttvarnareglum í húsakynnum eða garði forsætisráðherrans við Downing-stræti 10. Hér var, með dyggri aðstoð fréttastofu ríkisútvarpsins, sótt hart að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, fram eftir ári í fyrra með ásökunum um að hann hefði brotið sóttvarnareglur á Þorláksmessu 2020. Átti það ekki við rök að styðjast eins og rannsókn lögreglu sýndi.

Nú í þessari viku hefur orðið umræða um það í fréttum Morgunblaðsins hvort farið var að sóttvarnareglum að kvöldi þriðjudags 25. janúar þegar íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í beinni útsendingu sjónvarps en þar sátu gestir án grímu eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

1321459Skjáskot frá viðburðinum á Bessastöðum í beinni útsendingu 25. janúar 2022.

Hjá Félagi ísl. bókaútgefanda veltu menn fyrir sér hvort athöfnin kynni að brjóta í bága við sóttvarnareglur. Ríkisútvarpið (RÚV) svaraði „að til staðar væri undanþága frá almennum sóttvarnareglum vegna útsendinga frá athöfnum á borð við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna,“ segir í frétt Morgunblaðsins 26. janúar.

Daginn eftir sagði Sif Gunnarsdóttir forsetaritari við blaðið að RÚV „væri með undanþágu frá almennum sóttvarnareglum og því hefðu fleiri en tíu mátt koma saman við afhendingu verðlaunanna“. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði sömu reglur gilda um útsendingar og sviðslistir:

„Það er langt síðan það lá fyrir frá [heilbrigðis]ráðuneytinu að reglurnar sem gilda um sviðslistir gilda líka um útsendingar og framleiðslu á sjónvarpi og kvikmyndum og slíku,“ sagði hann, ekki hefði verið sótt um sérstaka undanþágu vegna athafnarinnar að Bessastöðum.

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við almannavarnir, svarið er skýrt: Samkvæmt gildandi takmörkunum eigi allir gestir að nota andlitsgrímu á atburðum sem þessum.

Af öllu þessu má ráða að í góðri trú hafi allir viðstaddir talið sig fara að reglum við verðlaunaafhendinguna vegna þess að RÚV taldi það í lagi þar sem litið væri á viðburðinn sem „sviðslist“! Viðburðir verði það við beina útsendingu í sjónvarpi!

Húsráðandi átti auðvitað síðasta orðið um þetta eins og reyndist í Ásmundarsal og RÚV ætti að muna. Hvers vegna þennan leikaraskap?