29.5.2018 11:31

Sviðsetning Gunnars Smára

Gunnar Smári gaf til kynna að atlaga sín að Einari hefði verið sviðsett til að efla stuðning við flokk sinn og Sönnu á kjördag.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir að það hafi líklega ýtt undir fólk að kjósa sig laugardaginn 26. maí að kvöldið áður spurði Einar Þorsteinsson fréttamaður hana hvernig væri að starfa í Sósíalistaflokki undir formennsku Gunnars Smára Egilssonar sem hefði oftar en einu sinni „skilið launafólk eftir kauplaust“. Sanna Magdalena brosti og sagði Gunnar Smára ekki formann flokksins og afneitaði honum sem slíkum en Einar var úthrópaður og þess jafnvel krafist að hann segði af sér.

Skjáskot af ruv.is Sanna Magdalena Mörtudóttur er rauðklædd lengst til hægri á myndinni sem sýnir Einar Þorsteinsson og Sigríði Hagalín fréttamenn ræða við frambjóðendur til borgarstjórnar að kvöldi föstudags 25. maí.

Undir þættinum að kvöldi föstudags 25. maí sagði flokksstofnandinn Gunnar Smári á Facebook:

„Vá, hvað Sanna Magdalena flengdi Einar Þorsteinsson, spyrjanda Sjálfstæðisflokksins, í kappræðunum þegar hann vildi fara í kosningabaráttu gegn mér. Hvílíkur drullusokkur þessi drengur.“

Gunnar Smári sat síðan í umræðuþætti í ríkissjónvarpinu sunnudaginn 27. maí sem talsmaður Sósíalistaflokksins, enda starfar flokkurinn undir hans handarjaðri. Hann sagðist hafa skynjað pólitískt dauðafæri fyrir sig og flokk sinn vegna spurningar Einars og þess vegna hefði sér þótt sjálfsagt að látast „verða foxillur til að magna þetta upp eins mikið og hægt var“.

Einar ræddi úrslit kosninganna í Kastljósi mánudaginn 28. maí. Versti stimpillinn sem menn fá á sig í Efstaleiti er að verða kenndir við Sjálfstæðisflokkinn. Nú valdi Einar viðmælendur með það sjónarmið að leiðarljósi að þeir mundu ekki taka málstað Sjálfstæðisflokksins: Stefán Pálsson, frambjóðanda VG, sem sagði þó flokk sinn og Samfylkinguna hafa fengið gula spjaldið í Reykjavík, og Fanneyju Birnu Jónsdóttur frá Kjarnanum, málsvara Viðreisnar, sem fabúleraði um „ópólitískan“ borgarstjóra eftir að Dagur B. fengi tækifæri til að ganga út með reisn og byði sig fram til þings!

Gunnar Smári gaf til kynna að atlaga sín að Einari hefði verið sviðsett til að efla stuðning við flokk sinn og Sönnu á kjördag. Hann hefur síðan tekið til við að ráðast að nýju á Einar með niðrandi ummælum.

Harða atlagan að Einari Þorsteinssyni vegna spurninga hans til Sönnu Magdalenu er annars dálítið á skjön við litlar umræður um atlögu Boga Ágústssonar fréttamanns að Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í kvöldfréttatíma sjónvarps fimmtudaginn 24. maí sem sjá má hér.