Svartsýni við stjórnarmyndun
Það sem er kvíðvænlegast við svartsýni stjórnarmyndunarfólksins er ekki raunveruleikinn heldur hitt hvernig þau sjá sjálf afleiðingar eigin stefnu.
Á dögunum ákváðu þeir sem vinna að myndun vinstristjórnarinnar að blása út yfir öll mörk stórhættu í ríkisfjármálum. Hún var í raun ekki annað en fínstilling á spá hagstofunnar um halla á ríkissjóði. Hann er og verður innan allra viðráðanlegra marka á alla mælikvarða. Neyðarópin voru ástæðulaus.
Innan sólarhrings frá því að spáin birtist hættu allir að tala um hana aðrir en þeir sem sjá sér hag af því að mála skrattann á vegginn til að búa sig undir að verja útgjalda- og skattheimtustjórnina sem er sögð í fæðingu og kenna öðrum um afleiðingar gerða hennar.
Þorsteinn Pálsson, fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins, er málsvari Viðreisnar og leggur stjórnarmyndun hennar með Samfylkingu og Flokki fólksins lið á Eyjunni í dag (19. desember). Hann styðst við fyrrnefnda spá hagstofunnar og segir alvörusvipinn á forystukonum væntanlegra stjórnarflokka vegna spárinnar benda til þess að „miðjupólitík stjórnarmyndunarflokkanna“ endurspegli „ábyrgari afstöðu til ríkisfjármála en raunin var hjá fráfarandi stjórn jaðranna yst til hægri og vinstri“.
Eftir að hafa hallmælt íslensku krónunni eins og venjulega leitar Þorsteinn að pólitísku fordæmi sem hann telur líkjast því sem nú gerist miðað við spá hagstofunnar og uppgötvar að leita verði aftur til ársins 1959 þegar Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndaði Viðreisnarstjórnina með Emil Jónssyni, formanni Alþýðuflokksins.
Að bera stöðu íslenska þjóðarbúsins núna saman við það sem var fyrir 65 árum stenst enga skoðun og sýnir aðeins hve langt er seilst, líklega í von um að allir láti sér vitleysuna í léttu rúmi liggja og hún nýtist grunnhyggnum fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum.
Þá er athyglisvert að Þorsteinn notar orðið „miðjupólitík“ í samræmi við þá línu á vefsíðum Helga Magnússonar að Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands sé miðflokkur! Að kenna málflutning af þessu tagi við ábyrgð og raunsæi er aðeins liður í blekkingarleiknum.
Greingarfyrirtækið Analytica birti 19. desember jákvæða spá um framvindu efnahagsmála og segir:
„Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) hækkaði í nóvember þriðja mánuðinn í röð. Enn er ekki hægt að draga þá ályktun að um sé að ræða marktæka vísbendingu um bjartari horfur en haldi þróun undirþátta hagvísisins áfram á sama veg þá breytist það. Tölur Hagstofu Íslands um landsframleiðslu benda enn til hægari vaxtar á þessu ári.
Fjórir af sex undirliðum hækka frá í október. Hækkun væntingavísitölu Gallup og aukning aflamagns frá fyrri mánuði hafa mest að segja á jákvæðu hliðinni og þá gæti þróun debetkortaveltu innanlands verið í viðsnúningi. Umtalsverð óvissa er áfram tengd þróun alþjóðastjórnmála sem hefur síst minnkað sem og óvissa í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi.“
Reynslan er sú að leiðandi hagvísir Analytica er að jafnaði um 6 mán á undan þróun landsframleiðslu. Þess vegna segir í textanum hér að ofan að spár hagstofunnar bendi „enn til hægari vaxtar á þessu ári“.
Það sem er kvíðvænlegast við svartsýni stjórnarmyndunarfólksins er ekki raunveruleikinn heldur hitt hvernig þau sjá sjálf afleiðingar eigin stefnu. Þess vegna er keppst við að búa þannig um hnúta með áróðri um vonda stöðu þjóðarbúsins að skuldinni megi skella á aðra.