Svandís á rangri leið
Ráðherra sem gengur fram á þennan veg brýtur grunnreglur stjórnsýslunnar. Í því tilviki sem hér um ræðir var ekki um að ræða gáleysi af hálfu ráðherrans heldur skýran pólitískan ásetning.
Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir gaf út reglugerð til að fresta veiðum á langreyði sumarið 2023 án þess að hafa heimild til þess í lögum. Reglugerðin braut gegn atvinnufrelsi og rétti Hvals hf. til hvalveiða, þau réttindi njóta stjórnarskrárverndar.
Hvalveiðibátar í Reykjavíkurhöfn.
Umboðsmaður alþingis segir í áliti sínu sem birt var 5. janúar að að útgáfa reglugerðarinnar, sem kvað á um frestun á upphafi hvalveiða til 1. september 2023, hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í 4. gr. laga nr. 26/1949 um hvalveiðar eins og sú grein verði skýrð með hliðsjón af markmiðum sínum, lagasamræmi og grunnreglum stjórnskipunarréttar um vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis.
Ráðherra sem gengur fram á þennan veg brýtur grunnreglur stjórnsýslunnar. Í því tilviki sem hér um ræðir var ekki um að ræða gáleysi af hálfu ráðherrans heldur skýran pólitískan ásetning.
Í ljósi alls þess sem sagt var um vandaða stjórnsýsluhætti eftir bankahrunið og skyldur þeirra sem við stjórnsýslu starfa er augljóst að þau ráð sem þá voru gefin og heitstrengingar um bætt vinnubrögð eru fokin út í veður og vind.
Svandís Svavarsdóttir, þáv. umhverfisráðherra, brást illa við í febrúar 2011 þegar hæstiréttur dæmdi að hún hefði ekki farið að lögum við töku ákvarðana um skipulagsmál í Flóahreppi er varðaði Urriðafossvirkjun í Þjórsá. Svandís færði meðal annars þessi rök fyrir lögbroti sínu í þingræðu 15. febrúar 2011:
„Spurningin er þessi: Hvaða hagsmunir eiga að njóta vafans þegar upp koma álitamál? Eru það hagsmunir viðskipta- og atvinnulífs eða eru það hagsmunir almennings og náttúru? Í mínum huga er þetta einföld spurning og fjallar í rauninni um grundvöll umhverfis- og náttúruverndar í landinu og mitt verkefni sem umhverfisráðherra á Íslandi. Þessi forgangsröðun liggur fyrir í mínum huga: Náttúran og almenningur eiga alltaf að njóta vafans.“
Þarna taldi ráðherrann að umhyggja hennar fyrir „náttúrunni og almenningi“ réttlætti lögbrot hennar og hún sat sem fastast í ráðherrastólnum með stuðningi Samfylkingarinnar. Nú er að vísu komið í ljós, tæpum 13 árum síðar, að umhyggja hennar fyrir almenningi að hindra virkjanir í neðri hluta Þjórsár hefur snúist í andhverfu sína. Umhyggjan hefur tekið á sig mynd orkuskorts og skömmtunar.
Heimildarlausa útgáfan á reglugerðinni til að stöðva hvalveiðarnar er rökstudd núna með þeim orðum að ráðherrann hafi ekki átt annarra kosta völ en þennan heimildarlausa gjörning til hindra að níðst yrði á hvölum. Eins konar neyðarréttur í þágu hvala hafi ráðið lögleysunni.
Stjórnarhættir eru á alvarlegri braut ef ráðherrar komast upp með að fara sínu fram án heimilda í lögum af því að þeim finnst eitthvað eigi að vera öðru vísi en lögin heimila.
Hér hefur oft verið hvatt til þess að farið verði í saumana á ákvörðunum sem teknar voru og vörðuðu hag og frelsi almennings á tíma heimsfaraldursins. Þá var Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og talaði oft um ákvarðanir sínar í upphöfnum stíl – og komst upp með það. Aðeins alþingismenn geta sett henni skorður.