19.3.2017 15:40

Sunnudagur

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í samtali við The Daily Telegraph fimmtudaginn 16. mars að Skotar gætu ekki sótt um aðild að EFTA nema þeir ákveði fyrst að slíta tengslin við Englendinga – aðeins sjálfstæðar þjóðir geti sótt um aðild að EFTA.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í samtali við The Daily Telegraph fimmtudaginn 16. mars að Skotar gætu ekki sótt um aðild að EFTA nema þeir ákveði fyrst að slíta tengslin við Englendinga – aðeins sjálfstæðar þjóðir geti sótt um aðild að EFTA.

Tilefni þessara orða utanríkisráðherra er að Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, nefndi aðild að EFTA og síðan EES sem kost fyrir Skota ef þeir fengju ekki aðild að ESB sem sjálfstæð þjóð. Ummæli Guðlaugs Þórs eru notuð af andstæðingum Sturgeon og sjálfstæðisstefnu hennar. Þannig segir Jon Rogers í breska blaðinu Express að Íslendingar hafi slegist hóp sívaxandi hóps Evrópuþjóða sem taki hugmynd Sturgeon um tengsl við ESB kuldalega.

Rogers segir að Guðlaugur Þór hafi sagt að það mundi „flækja málið“ fyrir Skota ef þeir reyndu að sækja um aðild að EFTA of snemma, til dæmis á tímanum sem liði á milli þess að niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu lægi fyrir um slit Sameinaða konungdæmisins en áður en til slitanna kæmi í raun. Þá hafi utanríkisráðherra sagt: „Framtíðarstefna Skotlands er málefni sem rætt er í Westminster [breska þinginu] og Edinborg og ég kýs að ræða ekki eitthvað sem kann að gerast.“

Þá segir blaðamaðurinn:

„Afstaða Íslands er enn eitt höggið fyrir Sturgeon sem virðist æ einangraðri með áform sín um að færa Skotland úr sambandinu [við Englendinga] og tengja það við stærra evrópskt samfélag.“

Ruth Davidson er leiðtogi skoskra íhaldsmanna og einn vinsælasti stjórnmálamaður Bretlands um þessar mundir að morgni sunnudags 19. mars var hún í Sky-sjónvarpsstöðinni í þætti Sophy Ridge. Þar vísaði Davidson til ummæla Guðlaugs Þórs og sagði þau sýna að stefna Sturgeon hjáleið inn í ESB væri ófær eins og annað sem fyrsti ráðherra Skotlands boðaði í sjálfstæðismálinu. Sturgeon væri nær að einbeita sér að því að bæta hag Skota í stað þess að villja eyðileggja Sameinaða konungdæmið.