1.5.2018 15:38

Sundrungarstefnu formanns VR beint gegn ASÍ

Með sundrungariðju sinni vinnur formaður VR gegn grunnsjónarmiðunum sem ASÍ boðar í 1. maí-auglýsingu sinni.

Alþýðusamband Íslands birti heilsíðu 1. maí-auglýsingu í Morgunblaðinu í dag (1. maí) undir fyrirsögninni: Sterkari saman. Þar er tekið fram að samstaðan hafi „leikið lykilhlutverk“ þegar litið sé til árangurs verkalýðshreyfingarinnar undanfarna áratugi. Lokaorðin eru svo þessi: „Það er mikið verk að vinna fyrir samhenta verkalýðshreyfingu. Við höfum vopnin og aflið til að breyta ef við stöndum saman.“

GetFile.php_1525189103387Í orði er sameiginlegi óvinurinn ríkisvaldið og Samtök atvinnulífsins en í raun snýst auglýsing ASÍ um að vara félagsmennina við sundrungaröflunum innan Alþýðusambandsins sjálfs. Þegar litið er á fréttir af ávarpi Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, á Ingólfstorgi í dag verður auðskiljanlegt að forystumenn ASÍ telji óhjákvæmilegt að árétta gildi samstöðunnar.

Ragnar Þór sagðist tala í nafni forsvarsmanna Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness  og Framsýnar á Húsavík, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, talaði ekki í þeirra umboði, hvorki við stjórnvöld né Samtök atvinnulífsins. Formaður fjölmennasta félagsins innan ASÍ talar þannig gegn „samhentri verkalýðshreyfingu“ og nauðsyn þess að „standa saman“ til að ná árangri.

Hann sagði: „Við boðum baráttu sem hefur ekki sést í íslenskri verkalýðshreyfingu í áratugi!“ Þetta má til sanns vegar færa því að boðskapur hans er um allt aðrar baráttuaðferðir en ASÍ auglýsir að best hafi dugað. Ragnar Þór sagði að verkalýðsforystan hefði á margvíslegan hátt brugðist síðustu ár. Með mikilli endurnýjun og nýliðun rynnu nú upp breyttir tímar.

Ragnari Þór er ljóst að hvorki innan hans félags eða annarra verkalýðsfélaga stendur vilji almennra félagsmanna til þess að efna til verkfalla, hvorki fyrir málstað Ragnars Þórs né annarra. Í stað þess að beita lögmætum aðferðum boðar Ragnar Þór skæruhernað á vinnumarkaði. Hann sagði:

„Við sendum smærri hópa í verkföll á fullum launum fyrir fjármagnstekjur af sjóðunum okkar. Og við munum gera það þar sem það bítur mest.

Það þarf að loka stofnunum ef þær eru ekki ræstar í þrjá daga. Það er hægt að loka uppskipun með því einu að senda nokkra tugi manns í verkfall á fullum launum. Það eru fleiri en flugmenn og flugvirkjar sem geta lamað hér flugsamgöngur.“

Með þessum ógeðfellda málflutningi er Ragnar Þór ekki aðeins að ögra viðsemjendum verkalýðshreyfingarinnar heldur forystumönnum sjálfrar hreyfingarinnar sem hann vill bola úr embættum sínum. Með sundrungariðju sinni vinnur formaður VR gegn grunnsjónarmiðunum sem ASÍ boðar í 1. maí-auglýsingu sinni.

Það eru söguleg tíðindi að ræðumaður á 1. maí hátíðahöldum noti tíma sinn til að splundra sjálfu Alþýðusambandi Íslands.