Sundrung í Samfylkingunni
Kolbrún andmælir þeirri skoðun Ólafs Þ. Harðarsonar stjórnmálaskýranda að þetta mál sé „stormur í vatnsglasi“, það flokkist „engan veginn undir það“.
Einlæg aðdáun þjóðkunna menningarblaðamannsins Kolbrúnar Bergþórsdóttur á Degi B. Eggertssyni er alkunn. Ávallt sér Kolbrún ljósan punkt í stjórnmálastörfum hans þegar aðrir sjá rautt.
Kolbrún skrifar fastan dálk, Sjónarhorn, í sunnudagsblað Morgunblaðsins. Í tölublaðinu sem kom út 2. nóvember, þar sem ritstjórnin fagnar 111 ára afmælisdegi blaðsins, kennir hún andstæðingum Dags B. í öðrum flokkum um hve átrúnaðargoð hennar er óvinsælt í eigin flokki.
Logi Einarsson og Kristrún Frostadóttir (mynd: mbl.is)
Tilefni hugleiðinga Kolbrúnar um Dag B. að þessu sinni eru umræðurnar sem orðið hafa um lítið álit Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, á Degi B. sem frambjóðanda til þings í Reykjavík þótt hann skipi annað sætið á eftir henni sjálfri í Reykjavíkurkjördæmi norður. Kolbrún telur raunar að Kristrún hafi „óbeit“ á Degi B.
Hún segir ekkert óeðlilegt að Kristrún ráðleggi hugsanlegum kjósanda að strika yfir nafn Dags B. á listanum, hitt sé „mun verra“ að hún telji sig vera aðalmanneskjuna og Dag B. einungis aukaleikara. „Verst“ sé þó „yfirlýsingin um að Dagur komi ekki til greina sem ráðherra komist Samfylkingin í ríkisstjórn“.
Kolbrún segir réttilega að Kristrún sjái ekki eftir skilaboðum sínum um Dag B. þótt henni þyki vissulega verra að þau hafi birst opinberlega. Skýringin sé sú að líklega vilji Kristrún vera „einráð innan Samfylkingarinnar“ og raða „í kringum sig já-fólki“. Hún óttist kannski „að Dagur muni skyggja um of á hana sjálfa verði hann ráðherra“. Hann hafi „persónutöfra“ en hún virki „stundum ansi köld“.
Kolbrún segir að Dagur B. hafi sýnt „geðprýði“ í þessum hremmingum, honum sé þó „greinilega ekki skemmt“, en korteri fyrir kosningar telji hann ekki skynsamlegt að skapa sundrungu innan flokksins. Kolbrún andmælir þeirri skoðun Ólafs Þ. Harðarsonar stjórnmálaskýranda að þetta mál sé „stormur í vatnsglasi“, það flokkist „engan veginn undir það“. Það sé að „myndast gjá“ innan Samfylkingarinnar.
Til að dreifa athygli frá deilunum innan Samfylkingarinnar er þar landlægt að kenna Morgunblaðinu eða sjálfstæðismönnum um pólitísk vandræði Dags B. Þeir sem fletta 111 ára afmælisblaði Morgunblaðsins þegar fram líða stundir og skoða þar greinar um stjórnmálamenn hljóta að álykta að þar hafi áhrifamikill álitsgjafi blaðsins tekið einarðlega upp hanskann fyrir Dag B. Eggertsson vegna ofsókna í hans garð innan hans eigin flokks. Það hljóti einfaldlega að vera rangt að í blaðinu birtist ekki lofsamleg ummæli um þennan stjórnmálamann.
Þetta mál sem Kolbrún ræðir snýr ekkert að því sem annarra flokka menn segja um Dag B. heldur afstöðu formanns Samfylkingarinnar. Nýliðar sem koma ekki til álita sem ráðherraefni, sé Dagur B. ekki gjaldgengur, eru í oddvitasætum og ógna ekki „gamalreynda“ þríeykinu, Kristrúnu, Jóhanni Páli Jóhannssyni og Loga Einarssyni. Öðrum hefur einfaldlega verið ýtt til hliðar, meira að segja reynslumiklum varaformanni flokksins, Guðmundi Árna Stefánssyni. Það er kalin jörð í kringum þetta þríeyki á toppi flokksins mánuði fyrir kosningar.