24.10.2022 9:32

Sunak næsti forsætisráðherra

Verði Sunak sjálfkjörinn gæti hann fræðilega farið beint í Buckinghamhöll, hitt Karl III. konung og orðið forsætisráðherra í dag. Að hraðinn verði slíkur er ólíklegt.

Líklegt er að Rishi Sunak verði nýr forsætisráðherra, jafnvel strax í dag, 24. október. Boris Johnson sem talinn var helsti keppinautur hans ákvað í gærkvöldi að gefa ekki kost á sér. Honum hafði, að sögn BBC, ekki tekist að afla sér stuðnings 100 þingmanna Íhaldsflokksins. Boris sagði í yfirlýsingu að hann ætti vísan sigur í kosningu meðal almennra flokksmanna en það dygði honum ekki þar sem hann nyti ekki nægilegs stuðnings innan þingflokksins.

Im-587311Rishi Sunak

Þegar þetta er skrifað hefur Penny Morduant þingmaður ekki gefið frá sér að fara í formannsframboð en líkur á að hún fái 100 stuðningsmenn innan þingflokksins. Það bendir því allt til að Sunak verði sjálfkjörinn.

Þegar Liz Truss sagði af sér sagði af sér embætti forsætisráðherra fimmtudaginn 20. október hófst leitin að eftirmanni hennar. Leikreglurnar voru: framboð með stuðningi minnst 100 þingmanna fyrir 14.00 mánudag 24. október, rafræn kosning meðal 170.000 skráðra flokksfélaga fram á föstudag 28. október.

Verði Sunak sjálfkjörinn gæti hann fræðilega farið beint í Buckinghamhöll, hitt Karl III. konung og orðið forsætisráðherra í dag. Að hraðinn verði slíkur er ólíklegt.

Truss gegndi forsætisráðherraembættinu aðeins í 44 daga, skemur en nokkur annar í sögu Bretlands. Í 10 daga var hlé á stjórnmálavettvangi vegna andláts og útfarar Elísabetar II.

Kwasi Kwarteng , fjármálaráðherra Truss, kynnti fjáraukalög 23. september 2022. Við það varð uppnám á breska skuldabréfamarkaðnum án þess að Truss fengi við neitt ráðið, hún glataði trausti þingmanna og þjóðar og baðst lausnar.

Bent er á að hafi skort fjármála- og skuldabréfalæsi í ríkisstjórn Truss sé ekki unnt að fá mann með meiri reynslu og þekkingu á því sviði í hennar stað en Sunak.

Rishi Sunak var fjármálaráðherra hjá Boris Johnson. Hann greindi ekki aðeins markaðsþróun á þann veg að embættismenn ráðuneytis hans sögðu hann ætíð skrefi framar en þeir heldur áttaði hann sig snemma á því hvert stefndi hjá Boris vegna stjórnarhátta hans. Sunak sagði af sér 5. júlí 2022 með þeim orðum að „grundvallarmunur“ væru á skoðunum hans í efnahagsmálum og forsætisráðherrans.

Sunak tapaði í kosningu fyrir Truss meðal almennra flokksmanna eftir að Boris hrökklaðist frá völdum. Stjórnmálaskýrendur segja það há honum í almennri kosningabaráttu að hann slái ekki um sig með hástemmdum loforðum heldur láti verkin tala.

Nú er minnt á að á tíma COVID-19 faraldursins hafi Sunak verið næstum eini ráðherrann í stjórn Borisar sem snerist gegn lokun samfélagsins (e. lockdown). Hann sé maður sem láti ekki stjórnast af því taldar séu „viðteknar skoðanir“ heldur greini mál sjálfur, kynni eigin niðurstöðu og berjist fyrir henni. Nú sé þörf á slíkum manni í forystu ríkisstjórnar og á stjórnmálavettvangi. Hann gangi skipulega til verks með skýr markmið. Stjórnarhættir hans verði því allt aðrir en hjá tilfinningaríkjum Boris eða slysalegri Truss.

Það er vissulega þörf á styrkri stjórn í Downing stræti 10 og festu í Íhaldsflokknum.