30.7.2023 10:59

Sumarskemmtun stjórnmálanna

Kveikjan að spennunni í stjórnmálunum og stjórnarsamstarfinu nú er ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að fresta hvalveiðum fyrirvaralaust.

Í minni margra er örugglega þegar allt lék á reiðiskjálfi í stjórnarsamstarfi framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í júlí 2004 þegar Ólafur Ragnar synjaði fyrstur forseta Íslands lögum frá alþingi, fjölmiðlalögunum, sem síðan voru dregin til baka 20. júlí 2004.

Þá reyndi mjög á stjórnarsamstarfið sem hélt þó áfram til þingkosninga vorið 2007, fyrst undir forystu Halldórs Ásgrímssonar, Framsóknarflokki, þegar Davíð Oddsson dró sig í hlé vegna veikinda. Síðan varð Geir H. Haarde, nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra 2006, leiddi flokkinn í þingkosningum vorið 2007 og myndaði stjórn með Samfylkingunni undir formennsku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem hafði löngum haft í heitingum við sjálfstæðismenn.

1422373Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur (mynd: mbl/Egggert Jóhannesson).

Kveikjan að spennunni í stjórnmálunum og stjórnarsamstarfinu nú er ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að fresta hvalveiðum fyrirvaralaust og án þess að virða góða stjórnsýsluhætti. Rannsakar umboðsmaður alþingis nú þá hlið málsins.

Bjarni Benediktsson segir að ákvörðun Svandísar gangi gegn stjórnarsáttmálanum sem gerður var við endurnýjun stjórnarsamstarfsins í nóvember 2021. Svandís rauf með öðrum orðum málamiðlunina sem þá var gerð.

Vegna umræðnanna nú sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og flokkssystir Svandísar á ruv.is 29. júlí að málamiðlanir væru „nauðsynlegar í ríkisstjórnarsamstarfi þriggja flokka. Þrátt fyrir háværa gagnrýni Sjálfstæðismanna séu þeir ekki þeir einu sem þurfi að gefa eftir“.

Þarna sparkar forsætisráðherrann boltanum út af vellinum. Í grunninn snýr þetta mál ekki að því að sjálfstæðismenn verði að ræða málið sín á milli, eins og hún sagði líka, heldur um að flokkssystir hennar rauf málamiðlun – og það með stuðningi forsætisráðherrans.

Þetta er undirrót vandans eins og hann blasir við þeim sem fylgst hafa með því á opinberum vettvangi sem gerst hefur í pólitíkinni frá því að Svandís tók óvænta og örlagaríka ákvörðun sína.

Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni hvers vegna ritari Sjálfstæðisflokksins, ráðherra og fyrrverandi þingmaður, aðstoðarmaður fráfarandi dómsmálaráðherra, halda þannig á málum að forsætisráðherra og Ólafur Þ. Harðarson, fyrrv. stjórnmálafræðiprófessor, lýsa þessu sem sérstöku innra vandamáli Sjálfstæðisflokksins. Á ruv.is er haft eftir prófessornum:

„Núna er hins vegar hópur [sjálfstæðismanna] sem virðist hóta stjórnarslitum af hugmyndafræðilegum ástæðum. Það er í rauninni nýtt vegna þess að ef Sjálfstæðisflokkurinn ákvæði að slíta stjórnarsamstarfinu þá væri það einsdæmi í sögu flokksins því þó að margar stjórnir sem flokkurinn hefur setið í hafi sprungið á lýðveldistímanum hefur það aldrei verið að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins.“

Einu sinni verður allt fyrst, kann einhver að segja. Hvað hefur þessi „hópur“ uppi í erminni? kunna aðrir að spyrja.